Innlent

Vilja heilsuþjónustu á St. Jósefsspítala

Sveinn Arnarsson skrifar
Lítið líf hefur verið í húsinu undanfarin ár.
Lítið líf hefur verið í húsinu undanfarin ár. vísir/stefán
Teitur Guðmundsson, eigandi Heilsuverndar, skoðar nú þann möguleika að koma á heilsutengdri þjónustu á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði en húsnæðið hefur staðið autt í fjölda ára. Bæjarstjóri Hafnarfjarðar segir engar formlegar viðræður hafa átt sér stað.

„Við höfum verið með þreifingar og að skoða það að hefja starfsemi í húsnæðinu og meðal annars verið í samskiptum við Hafnarfjarðarbæ með það að markmiði að í því verði starfrækt heilbrigðisþjónusta. Það hefur verið stefnan að koma starfsemi í gang fyrir árslok á þessu merka níutíu ára afmæli húsnæðisins,“ segir Teitur. „Málin eru á viðkvæmu stigi og góðir hlutir gerast hægt. Hlutirnir hafa verið í ákveðinni bið undanfarið þar sem eignarhald á húsinu hefur verið til umræðu og ýmislegt fleira en við vonum að formlegar viðræður geti hafist fljótlega.“

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvers konar heilbrigðistengd þjónusta verður starfrækt í húsnæðinu en ýmsir möguleikar hafa skotið upp kollinum. Eftir að Heilsumiðstöðin ehf. ákvað að rifta samningi sínum við Sjúkratryggingar um sjúkrahótel leitar nú Landspítalinn að lausn á vanda spítalans.

Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir engar formlegar viðræður hafa farið fram milli bæjaryfirvalda og Teits Guðmundssonar. „Ég hef fengið frá honum tölvupóst um málið en engar ákvarðanir hafa verið teknar hjá stjórn bæjarins um að hefja formlegar viðræður. Þessi mál eru í stöðugri skoðun.“

Samþykkt liggur fyrir í bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar um að skipa starfshóp sem á að fara með málefni St. Jósefsspítala og móta tillögur um nýtingu á húsnæðinu. Sá starfshópur hefur ekki enn verið settur saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×