Innlent

Vilja gera bólusetningu að skilyrði fyrir leikskólavist í Reykjavík

Birgir Olgeirsson skrifar
Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. vísir/vilhelm
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ætla að leggja að borgarstjórn samþykki að ekkert barn skuli fá inngöngu á leikskóla á vegum Reykjavíkurborgar nema það hafi fengið þær bólusetningar sem aldur þess segir til um, samkvæmt leiðbeiningum sóttvarnalæknis frá janúar 2013.

Tillöguna ætla borgarfulltrúarnir að leggja fram á borgarstjórnarfundi á morgun en í henni kemur fram að ef læknisfræðilegar ástæður hamla því að börn séu bólusett þá megi gera undatekningu frá þessari reglu.

Í greinargerð borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins kemur fram að upp á síðkastið hafi borið á því að foreldrar neiti að láta bólusetja börn sín og beri fyrir sig áhyggjur af hugsanlegum neikvæðum aukaverkunum bólusetninga. „Þetta er afar varhugaverð þróun, enda verður að viðhalda háu bólusetningarstigi eigi að varðveita svokallað hjarðónæmi gagnvart smitsjúkdómum. Áhættan af neikvæðum afleiðingum bólusetninga er stjarnfræðilega miklu minni en áhættan af margs konar hættulegum og banvænum smitsjúkdómum sem þeim er ætlað að hindra,“ segir í greinargerð borgarfulltrúanna.

Vísa þeir í nýlegar fréttir af mislingafaraldri í Þýsklandi og segja að með því að gera bólusetningar að skilyrði fyrir leikskólavist myndi Reykjavíkurborg stuðla að því að foreldrar axli ábyrgð og taki áfram þátt í að tryggja haldgóðar varnir gegn smitsjúkdómum.

Sjá má greinargerðina hér. 


Tengdar fréttir

18.000 ástæður fyrir fordómum

Ég er ekki fordómafull kona. Er eiginlega frekar fordómalítil gagnvart lífsháttum ýmiss konar. Með einni mjög afgerandi undantekningu. Til er sá hópur fólks sem fær blóð mitt til að þjóta um æðarnar af hreinum pirringi og fullkomnu óþoli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×