Innlent

Vilja gelda villiketti í stað þess að aflífa þá

garðar örn úlfarsson skrifar
Villikettir éta það sem til fellur. Hér er kanína í Öskjuhlíðinni á matseðlinum.
Villikettir éta það sem til fellur. Hér er kanína í Öskjuhlíðinni á matseðlinum. Fréttablaðið/Ernir
Félagið Villikettir vill láta gelda villiketti og sleppa þeim svo aftur til að halda fjölda þeirra í skefjum.

„Oft er sagt að hægt sé að dæma þjóðfélag eftir því hvernig það kemur fram við þá sem minna mega sín. Lengi hefur íslenskt samfélag litið fram hjá vandamálum villikatta, eða litið á þá sem plágu,“ segir í erindi Villikatta til Hafnarfjarðarbæjar.

Félagið segir þá aðferðafræði að veiða villiketti, gelda þá og sleppa aftur vera mannúðlega leið til að takast á við villikattastofna án þess að aflífa kettina.

„Þá eru mörg búr sett samtímis út á svæðin þar sem þeir hafast við, dýrin eru fönguð, gelt og sleppt aftur á svæðið ef ekki er um kettlinga eða mjög særð dýr að ræða. Þessar aðferðir hafa gefist sérlega vel í öðrum löndum. Við munum svo sjá til þess að skjól sé á svæðinu og sjálfboðaliðar séu til staðar sem fylgjast með matargjöfum,“ segja Villikettir sem fullyrða að mannfólkið njóti kosta af tilveru villikatta.

„Þeir veiða mýs og halda aftur af ágangi rotta og máva. Það hefur einnig verið sýnt fram á að það að sleppa villiköttum frekar en að aflífa er langtímalausn því að þeir halda svæðunum sínum sjálfir og hindra þar með aðra ógelta ketti í að festa sér búsetu á þessum svæðum þar sem æti og skjól er að finna og fjölga sér þar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×