Innlent

Vilja frekar snúa frá fjallinu

Boði Logason skrifar
Hekla
Hekla Mynd/gva
„Við höfum fengið nokkrar afbókanir en það er bara fólk sem er hætt við að koma til Íslands eftir að hafa séð fréttir að Hekla sé tilbúin að gjósa," segir Óli Már Aronsson, hjá Heklusetrinu á Leirubakka.

Fjallað hefur verið um það bæði í fjölmiðlum hér á landi og erlendis að Hekla sé tilbúin til að gjósa því mikil þensla hefur verið undir fjallinu síðustu ár. Jarðeðlisfræðingar segja að ef jörð fer að skjálfa tekur það einungis einn til tvo klukkutíma fyrir kvikuna að fara upp á yfirborðið.

Nokkrir ferðamenn hafa afbókað bókanir sínar á hótelinu síðustu daga og segir Óli Már að margir séu áhugasamir um gosið. En þó ekki allir. „Fyrir heimamenn er þetta náttúrlega ekki neitt neitt en ég finn fyrir því hjá erlenda starfsfólkinu okkar að það heldur að þetta sé eitthvað hræðilegt."

Á Leirusetrinu er hægt að skoða safn um Heklugos en þar einnig hótel og segir Óli Már að nokkrir viðskiptavinir óttist að gos hefjist á næstu dögum. „Við erum með hótel og önnur hliðin snýr að Heklu og hinn helmingurinn frá fjallinu. Það er ein og ein taugaveikluð kona sem er búin að biðja um að fá að snúa frá fjallinu. Þó að það sé nú eftirsóknarverðara að sjá fjallið," segir Óli Már í léttum dúr.

Sjálfur segist hann ekki hafa neina hugmynd um hvort að fjallið fari að gjósa en tekur fram að það hafi verið tilbúið að gjósa í þrjú til fjögur ár. „Maður getur ekkert sagt um það - það hefur verið talað um að það sé að koma gos síðustu ár en það hefur aldrei neitt gerst," segir hann að lokum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×