Viðskipti innlent

Vilja flytja út íslenska tómata

Tómaturinn barst til Evrópu með Spánverjum á 15. og 16. öld frá Suður Ameríku en tækninni hefur fleygt svo fram að nú sjá menn tækifæri í því að rækta þá á Íslandi og flytja út til Bretlands. Þessi tegund sem hér sést er kölluð kirsuberjatómatar.
Tómaturinn barst til Evrópu með Spánverjum á 15. og 16. öld frá Suður Ameríku en tækninni hefur fleygt svo fram að nú sjá menn tækifæri í því að rækta þá á Íslandi og flytja út til Bretlands. Þessi tegund sem hér sést er kölluð kirsuberjatómatar.
Fyrirtækið Geogreenhouse áformar að hefja útflutning á tómötum og miðast hugmyndirnar við að fyrsta sending fari utan í september á næsta ári. Að öllu óbreyttu yrði það þá fyrsta fyrirtækið til að flytja út grænmeti frá Íslandi. Nú þegar hafa náðst samningar við breskt fyrirtæki um markaðssetningu, pökkun og dreifingu tómatana. Gangi áformin eftir verða tómatarnir meðal annars til sölu hjá stórmarkaðakeðjunni Marks og Spencer.

Tómatarnir verða ræktaðir í sérstökum hátæknigróðurhúsum sem verða reist í þremur þrepum, en að því loknu munu um 150 manns starfa hjá fyrirtækinu. Áformað er að hefja framkvæmdir næsta vor og í fyrsta áfanga verður reist 3,3 hektara gróðurhús sem 35 manns munu starfa við. Tveimur árum seinna verður það stækkað upp í 10 hektara og þá yrði starfsmannafjöldinn kominn upp í tæplega hundrað manns. Ekki hefur verið ákveðið hvenær lokaáfanganum lýkur en þá eiga gróðurhúsin að vera orðin 20 hektarar og eins og fyrr segir munu þá um 150 manns starfa hjá fyrirtækinu. Tómatarnir verða fluttir með skipi til Immingham í Englandi.

Sigurður Kiernan, stjórnarformaður Geogreenhouse, segir að verið sé að vinna í samningi við orkufyrirtæki en gróðurhúsið verði staðsett við jarðvarmavirkjun. Hann kveðst ekki geta sagt nánar til um staðsetningu fyrir gróðurhúsið en Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að rætt hafi verið við bæjaryfirvöld á Reykjanesi um að reisa það þar.

Sigurður telur þessa vöru hafa ýmsa kosti fram yfir þær sem framleiddar eru víðast hvar erlendis. „Við höfum þann kost á Íslandi að geta notað besta vatn í heimi við ræktunina á meðan Bretar, Hollendingar og fleiri eru að nota iðnaðarvatn í sína framleiðslu,“ segir hann. „Við notum ekki heldur skordýraeitur eins og gert er víðast hvar erlendis og það gefur vörunni ákveðinn gæðastimpil. Svo er þetta umhverfisvænt því við erum ekki að brenna gas til að hita gróðurhúsin heldur notum við jarðvarma.“ Jarðvarmavirkjun mun sjá gróðurhúsinu fyrir heitu vatni, rafmagni, vatni til að vökva og koltvísýringi. Honum verður hleypt inn í gróðurhúsið til að örva vöxt.

Með svokölluðum aðlögunarsamningi frá árinu 2002 var íslenskum framleiðendum gert kleift að flytja út grænmeti. Að sögn Bjarna Jónssonar, framkvæmdastjóra Sambands garðyrkjubænda, hefur þó enginn hafið útflutning enn. „Reyndar hafa verið gerðar tilraunir á útflutningi á rófum og kartöflum til Færeyja en annars hefur enginn hafið útflutning sem einhverju nemur,“ segir hann.

- jse





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×