Innlent

Vilja fá samtal Davíðs og Geirs

björn valur gíslason
björn valur gíslason
Fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hafa óskað eftir afriti af símtali Davíðs Oddssonar, þáverandi formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, og Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, frá október 2008. Umræðuefnið var fyrirhugað lán Seðlabankans til Kaupþings.

Seðlabanki Íslands lánaði Kaupþingi 500 milljónir evra 6. október 2008, tveimur dögum fyrir hrun bankans. Í vitnaleiðslum vegna Landsdóms kom fram að upptaka af samtali Davíðs og Geirs um lánið væri til og nú hafa þingnefndirnar tvær óskað eftir afriti af því.

Björn Valur Gíslason, varaformaður fjárlaganefndar, segir að ekki hafi borist svar við málaleitan þingnefndanna. Hann á þó ekki von á öðru en þingnefndirnar fái afrit af símtalinu.

„Það eru fordæmi fyrir því. Í fyrra fengum við afrit af samtali Seðlabankastjóra Íslands og Bretlands til aflestrar, vegna yfirlýsingar fyrrverandi seðlabankastjóra um Icesave og fleira. Ég á ekki von á öðru en þeir veiti okkur aðgang að þessu."

Björn Valur segir mikilvægt að fá upplýsingar um hvernig staðið var að lánveitingunni. Um gríðarlegar upphæðir hafi verið að ræða með nánast engum veðum.

„Þetta eru slíkar upphæðir að rétt er að fá úr því skorið hvernig þetta var framkvæmt. Hvort ákvörðunin var tekin í samráði eða með leyfi þáverandi forsætisráðherra."- kóp



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×