Innlent

Vilja ekki flug yfir byggð á kvöldin og á nóttunni

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Íbúar og gestir Reykjanesbæjar verða fyrir miklu ónæði af þeirri auknu flugumferð sem fer um Keflavíkurflugvöll. Bæjaryfirvöld hafa fundað um málið og krefjast úrbóta.

Bæjarráð Reykjanesbæjar bókaði á fundi sínum á dögunum, þau tilmæli til flugvallaryfirvalda á Keflavíkurflugvelli og flugfélaga sem nota flugvöllinn að reyna eftir fremsta megni að draga úr og takmarka óþarfa ónæði osem íbúar og gestir Reykjanesbæjar verða fyrir vegna flugumferðar.

Ástæðan fyrir bókun bæjarráðs er sú að norður-suðurbrautin er lokuð í sumar vegna viðhaldsframkvæmda og því er einungis notast við austur-vestur flugbrautina og því fer allt flugtak og allar lendingar fram yfir Reykjanesbæ.

„Það er orðin ansi mikil flugumferð, seint á kvöldin og á nóttunni og við erum að fara þess á leit góðfúslega við flugvarllaryfirvöld og þau reyni að beina þessari næturumferð í aðrar áttir en beint yfir bæinn,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Er þetta ekki hluti af því að vera með flugvöll í túnfætinum?



„Jú vissulega og við viljum hvergi annarsstaðar hafa hann," segir Kjartan

Þess er krafist í bókuninni að flugumferð frá klukkan 11 að kvöldi til klukkan 7 á morgni verði sem mest beint um vestari enda flugbrautarinnar og að flugtaksferlar, sem hannaðir eru til að valda sem minnstum hávaða og ónæði, verði á sama tíma í forgangi ef nota á austari hluta flugbrautarinnar.

„Við auðvitað höfum verið að gera okkar besta til þess að takamarka flug yfir íbúabyggðina að því að lendingar og flögtök eru oft á sama tíma hér. Þá er óhjákvæmilegt að annað hvort lending eða flugtak fari yfir byggðina í Njarðvík,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia.

Flugmálayfirvöld hafa fundað með bæjaryfirvöldum og reynt að finna lausn á málinu.

„Þetta er aukið ónæði fyrir íbúa og þetta er auðvitað mjög leitt en þetta þarf að vera svona því miður núna,“ segir Guðni.

Framkvæmdum á norður-suður flugbrautinni á að ljúka í síðasta lagi í október.

Er þetta ekki bara óþolinmæði?



„Nú er hásumar og umferðin er í hámarki og ferðamannastraumurinn í hámarki og gistirými hér meira eða minna öll full,“ segir Kjartan.

Eruði ekki hræddum að styggja flugrekstraraðilameð þessari bókun?



„Nei, við erum einmitt að segja við þá að við viljum hafa ykkur. Við viljum lifa í sátt og samlyndi. Við viljum hafa ykkur sem lengst um ókomna framtíð,“ segir Kjartan að lokum


Tengdar fréttir

Minnki hávaða frá flugvellinum

Bæjarráð Reykjanesbæjar vill að yfirvöld á Keflavíkurflugvelli og flugfélög sem nota völlinn dragi af fremsta megni úr og takmarki óþarfa ónæði sem Reyknesingar verða fyrir vegna flugumferðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×