Erlent

Vilja draga verulega úr persónuvernd

Samúel Karl Ólason skrifar
Leiðtogi minnihlutans, Nancy Pelosi, segir repúblikana setja hagnað fyrirtækja ofar hagi og áhyggjum Bandaríkjamanna.
Leiðtogi minnihlutans, Nancy Pelosi, segir repúblikana setja hagnað fyrirtækja ofar hagi og áhyggjum Bandaríkjamanna. Vísir/Getty
Bandarískir þingmenn hafa samþykkt að binda enda á tiltölulega nýja reglugerð um meðferð persónugagna viðskiptavina internetveita. Ef Donald Trump, skrifar undir frumvarpið, eins og búist er við, geta internetveitur eins og AT&T og Comcast safnað upplýsingum um hvað notendur þeirra gera á netinu án leyfis.

Þá geta fyrirtækin notað þær upplýsingar til að selja hnitmiðaðar auglýsingar, eða selt upplýsingarnar beint til auglýsingafyrirtækja og annarra.

Þá fella niður skilyrði sem sett voru á fyrirtækin til að verja gögn viðskiptavina sinna gegn þjófnaði.

Fjármálaeftirlit Bandaríkjanna samdi þessar reglur upprunalega og voru þær staðfestar í fyrra. Samkvæmt nýja frumvarpinu má eftirlitið ekki semja sambærilegar reglur á nýjan leik.

Gagnrýnendur gömlu reglugerðarinnar segja hana hafa dregið úr nýsköpun og samkeppni.

Samkvæmt AP fréttaveitunni er þetta liður repúblikana í að fella niður fjölda reglna og laga sem tóku gildi á síðustu mánuðum ríkisstjórnar Barack Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. 

Leiðtogi minnihlutans, Nancy Pelosi, segir repúblikana setja hagnað fyrirtækja ofar hagi og áhyggjum Bandaríkjamanna.

„Mikill meirihluti Bandaríkjamanna er ekki sammála repúblikönum um að þessar upplýsingar eigi að ganga kaupum og sölum, og þá sérstaklega án leyfis. Internetveitur okkar vita mjög svo persónulegar upplýsingar um okkur og fjölskyldur okkar.“

Fyrirtæki eins og Google og Facebook safna upplýsingum um notendur sína, en þær upplýsingar sem internetveitur hafa aðgang að eru mun umfangsmeiri. Internetveitur geta séð hvaða vefsvæði notendur sínir skoða, hvenær, hvert þeir senda tölvupósta og margt fleira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×