Innlent

Vilja búa með sýrlensku flóttafólki sem á börn

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Fimm manna fjölskylda í kjallaraíbúð á Langholtsvegi, Lovísa Árnadóttir, Gústav Adolf Hermannsson og þrjú börn þeirra, þar af tvíburar sem eru nokkura mánaða gamlir, vilja opna heimili sitt fyrir sýrlenskum flóttamönnum og aðstoða þá meðan þeir koma undir sig fótunum.

„Ég sá svona fyrir mér, þetta er ekki stórt herbergi en myndi henta vel pari eða einstaklingi með barn,“ segir Lovísa Árnadóttir en henni var illt í hjartanu eftir að hafa séð ljótar fréttamyndir af hlutskipti flóttamanna.

Þegar Facebook-síðan Kæra Eygló- Sýrland kallar fór af stað, ræddi hún við mann sinn um herbergi í íbúðinni sem í dag er nýtt sem geymsla.

Hún segir að þau eigi einnig föt og leikföng sem barnafólk gæti notað. Og þetta var engin skyndihugdetta, Lovísa og Gústaf ræddu málið lengi áður en ákvörðun lá fyrir og þeim er fyllilega alvara. Þau fullyrða að þau muni standa við stóru orðin.

Þau eru í hópi fjölmargra Íslendinga sem stíga fram og bjóðast persónulega til að aðstoða í kjölfar skelfilegra frétta, af örlögum fólks, sem flýr stríð og eymd til að bjarga sjálfu sér og börnunum sínum, stundum til þess eins að koma að lokuðum dyrum, landamærum veraldar sem vill ekki eða treystir sér ekki til að hjálpa.

Stöð 2 fór í heimsókn og talaði við þau á heimili þeirra. Sjá má innslagið í spilaranum að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×