Innlent

Vilja afferma frá fjögur að nóttu í miðbænum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Starfsmenn Ölgerðarinnar afferma bíl á Hverfisgötu.
Starfsmenn Ölgerðarinnar afferma bíl á Hverfisgötu. Fréttablaðið/Anton Brink
Ölgerðin Egill Skallagrímsson fær ekki undanþágu frá reglugerð um hávaða til að geta byrjað vörulosun í miðbæ Reykjavíkur klukkan fjögur að nóttu í staðinn fyrir klukkan sjö að morgni.

„Við vildum létta á álaginu en heilbrigðisnefnd Reykjavíkur og Umhverfisstofnun lögðust gegn því og umhverfis- og auðlinda­ráðuneytið gerði enga rannsókn á málinu heldur tók þær umsagnir upp athugasemdalaust og hafnaði þessu,“ segir Lárus Ólafsson, lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu sem reka málið fyrir Ölgerðina.

Lárus Ólafsson. lögmaður Samtaka verslunar og þjónustu.
Synjun ráðuneytisins var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem sagði ekki í sínum verkahring að úrskurða um ákvörðun ráðherra og vísaði málinu frá.

Lárus segir að umhverfisráðuneytið hafi hvorki virt rannsóknarskyldu sína né andmælarétt Ölgerðarinnar með því að byggja niðurstöðu sína á umsögnum heilbrigðisnefndar Reykjavíkur og Umhverfisstofnunar án þess að kynna þessar umsagnir fyrir fyrirtækinu og gefa því tækifæri til að tjá sig um þær. Kvörtun hafi því verið send til umboðsmanns Alþingis.

Lárus ítrekar að málið snerti ekki Ölgerðina eina og ekki aðeins vöruflutninga því mikil rútuumferð sé í miðbænum og sorphirðubílar og götusópunarvélar þurfi að komast að.

„Þetta helst í hendur við takmörkun á aðgengi samhliða aukinni uppbyggingu þjónustu og verslunar í miðbænum. Það hefur verið lokað á bíla, aðkoma skert og bílastæði tekin frá,“ segir hann. Fyrirtæki hafi brugðist við með því að reyna að koma vörunum í minni einingum og þá fleiri ferðum niður í bæ. „En það nær bara að ákveðnu marki. Það er ekki hægt að hagræða mikið meira en búið er að gera nú þegar.“

Lárus segir málið hafa verið þrautagöngu milli Reykjavíkurborgar, stofnana og ríkisins. Það sé súrt að ráðuneytið hafi ekki gætt meðalhófsreglu og hafnað beiðninni án þess að kanna hvort Ölgerðin væri til í aðra tilhögun.

„Menn væru jafnvel til í skoða að það yrði ekki byrjað fyrr en klukkan fimm eða sex eða að vera tvo eða þrjá daga í vikunni í staðinn fyrir fimm daga. Við vildum létta á álaginu en heilbrigðisnefnd Reykjavíkur og Umhverfisstofnun lögðust gegn því og ráðuneytið gerði enga rannsókn á því heldur tók þær umsagnir upp athugasemdalaust og hafnaði þessu,“ segir Lárus Ólafsson. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×