Erlent

Vilja að Trump missi áfengisleyfið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Trump International hótelið í Washington DC er hið glæsilegasta.
Trump International hótelið í Washington DC er hið glæsilegasta. TIH
Hópur trúarleiðtoga og lögmenntaðra í Bandaríkjunum segja að hótel í eigu Bandaríkjaforsetans Donalds Trump ætti að missa áfengisleyfi sitt.

Hópurinn sendi inn formlega kvörtun til leyfisveitandans Alcoholic Beverage Control Board þar sem fram kom að Trump International hótelið í Washington DC hafi fyrirgert sér réttinum til áfengissölu vegna „svívirðilegrar framkomu“ stofnandans.

Reglur borgarinnar kveða á um að aðeins fólk með „gott geðslag“ (e. good character) hafi heimild til að selja áfengi í Washington. Hópurinn telur hins vegar að forsetinn, stofnandi umrædds hótels, sé „ekki með gott geðslag.“

Hópurinn samanstendur af fyrrverandi dómurum, sem og rabbínum og prestum. Meðal helsta röksemda hans fyrir leyfissviptingunni eru ásakanir á hendur forsetanum um kynferðislega áreitni sem og „ótal rasískar athugasemdir hans“ í gegnum árin. Í því samhengi er minnst á ummæli hans um að Afríkuríki væru „skítaholur.“

Hópurinn segir jafnframt að Trump hafi árum saman logið um ríkidæmi sitt, sem og að hafa átt í sambandi við klámstjörnu meðan hann var giftur annarri konu - núverandi eiginkonu sinni Melaniu Trump.

Þrátt fyrir að hópurinn segist gera sér grein fyrir því að siðferismatið eigi sér yfirleitt stað fyrir leyfisveitinguna telur hann að framganga Trump kalli á endurskoðun. Þó svo að Trump sé ríkur og valdamikill geri það hann ekki undanþeginn kröfunni um gott geðslag.

Synir Trump hafa haldið um stjórnartaumana í fyrirtækjum hans eftir að hann tók við embætti forseta. Hann á þó ennþá öll hlutabréfin sín í Trump Organization.


Tengdar fréttir

Hóteleigandi lagði Trump

Aðaleigandi lúxushótels í Panamaborg fer nú aftur með stjórn byggingarinnar eftir að honum tókst að leggja The Trump Organization, sem hafði farið með rekstur hótelsins, fyrir þarlendum dómstólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×