Viðskipti innlent

Vilja að skipulag lóðar Landsbankans við Hörpu verði endurskoðað

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Lóðin þar sem áætlað er að nýjar höfðustöðvar Landsbankans rísi.
Lóðin þar sem áætlað er að nýjar höfðustöðvar Landsbankans rísi. vísir/valli
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur vilja að unnið verði með Landsbankanum að því að finna viðunandi framtíðarstaðsetningu fyrir höfuðstöðvar bankans í borginni.

Fulltrúarnir, þau Júlíus Vífill Ingvarsson og Herdís Anna Þorvaldsdóttir, vilja að skipulag lóðar bankans á Austurbakkanum verði endurskoðað og að efnt verði til samkeppni um nýtingu lóðarinnar. Þá verði leitað eftir hugmyndum frá fagfólki og almenningi um hvernig lóðin muni nýtast best í heildarsamhengi miðborgarinnar.

Fulltúrar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun á fundi umhverfis-og skipulagsráðs í gær sem svar við bókun sjálfstæðismannanna:

„Umrædd lóð er í samþykktu skipulagi og er á forræði Landsbankans. Ríki og borg seldu lóðina til bankans eftir útboð árið 2013. Skipulagsáætlanir hafa gert ráð fyrir að byggt verði á lóðinni allt frá því að tónlistarhúsi þjóðarinnar, Hörpu var valinn staður á svæðinu. Uppbygging á lóðinni er mikilvæg, svo þarna verði ekki áfram hola, stórt sár í borgarmyndinni. Þá er líka æskilegt að þarna verði um fjölmennan vinnustað að ræða, sem verður bakland þjónustu og verslunar í miðborginni. Afar mikilvægt er að jarðhæðir nýbyggingarinnar verði opin og lifandi almenningsrými, eins og skipulagið gerir ráð fyrir. Best færi á því að sem allra stærsti hluti jarðahæðanna yrði þannig. Mælist umhverfis- og skipulagsráð til að því verði beint til lóðahafa en vísar fyrirliggjandi tillögu að öðru leyti frá.“


Tengdar fréttir

Borgaryfirvöld vilja að nýjar höfuðstöðvar rísi á Hörpureitnum

Formaður borgarráðs Reykjavíkur segir ekki eftirsóknarvert að Hörpureiturinn standi tómur um ókomna tíð, verði fallið frá áformum um að byggja nýjar höfuðstöðvar Landsbankans á svæðinu. Borgin vilji sjá nýjar höfuðstöðvar rísa á reitnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×