Innlent

Vilja að sextán ára fái að kjósa

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/pjetur
Fjórir þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hafa lagt fram frumvarp þess efnis að kosningaaldur verði færður úr átján árum í sextán ár. Flutningsmenn eru Katrín Jakobsdóttir, Árni Páll Árnason, Kristján L. Möller og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og lögðu þau fram frumvarpið fyrir Alþingi í lok þingfundar í gær.

Í greinargerð frumvarpsins segir að markmið þess sé að styðja við lýðræðislega þátttöku ungs fólks bæði í kosningum sem og stjórnmálastarfi. „Með því að veita ungu fólki á aldrinum 16-18 ára kosningarétt fær það tækifæri til að móta líf sitt og framtíð á sama hátt og aðrir borgarar og verður að fullu gjaldgengt í umræðu um stjórnmál og samfélagsefni,“ segir orðrétt í greinargerðinni.

Samfylkingin samþykkti ályktun um sextán ára kosningaaldur á landsfundi sínum sem fram fór um síðustu helgi. Þingmenn Vinstri grænna hafa tvisvar áður flutt þingmál efnislega samhljóðandi þessu frumvarpi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×