Erlent

Vilja að Repúblikanaflokkurinn hætti að ausa peningum í Trump

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump á kosningafundi í vikunni.
Donald Trump á kosningafundi í vikunni. vísir/epa
Meira en sjötíu meðlimir Repúblikanaflokksins hafa ritað bréf til Reince Priebus, formanns landsnefndar flokksins, þar sem hann er hvattur til þess að sjá til þess að flokkurinn hætti að styðja fjárhagslega við kosningabaráttu Donald Trump, frambjóðanda repúblikana til forseta Bandaríkjanna.

Á meðal þeirra sem skrifa undir bréfið eru nokkrir fyrrverandi þingmenn Repúblikanaflokksins en í því segir meðal annars að vanhæfi og tilhneiging hans til að vilja sundra frekar en sameina geti leitt til þess að flokkurinn bíði afhroð í forsetakosningunum í nóvember.

Eins og Vísir fjallaði um fyrr í vikunni eru einmitt líkur á því að Clinton sigri Trump, og það jafnvel með nokkrum yfirburðum, að minnsta kosti ef marka má spá kosninga-og tölfræðivefsins FiveThirtyEight. Þannig hefur forskot Clinton í könnunum undanfarna daga aukist jafnt og þétt.

 

„Við trúum því að vilji Trump til þess að sundra frekar en sameina, vanhæfi hans, kæruleysi og fordæmalausar óvinsældir leiði til þess að Demókratar vinni stórsigur í nóvember,“ segir í bréfinu.

Í bréfinu er flokkurinn hvattur til þess að styðja frekar við frambjóðendur í kosningum til öldunga-og fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Að mati þeirra sem skrifa undir bréfið ætti ekki að vera erfitt fyrir flokkinn að ákveða að hætta að styrkja Trump þar sem sigurlíkur hans fari hverfandi með hverjum degi sem líður.

Trump hefur brugðist við bréfinu og gefur lítið fyrir það að Repúblikanaflokkurinn hætti að styðja við kosningabaráttu hans.

„Það eina sem ég þarf að gera er að hætta að dæla styrkjum í flokkinn,“ sagði Trump.

Time-tímaritið greindi frá því í að gær að Reince Priebus hefði hótað Trump því að flokkurinn myndi hætta að styrkja hann og að peningarnir færu í staðinn til þingframbjóðenda sem þurfi meira á stuðningi að halda. Trump neitar því að hafa átt samtal um þetta við Priebus.


Tengdar fréttir

Trump sagði Obama vera stofnanda ISIS

Donald Trump forsetaframbjóðandi Repúblikana sagði í ræðu á kosningafundi í Flórída í gær að Barack Obama Bandaríkjaforseti væri stofnandi hryðjuverkasamtakanna ISIS.

Ryan segir ummæli Trumps um byssueigendur óviðeigandi grín

Paul Ryan, repúblikani og forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sagði í gær að ummæli Donalds Trump, forsetaframbjóðanda repúblikana, um að fólk sem styður annan viðauka stjórnarskrárinnar gæti komið í veg fyrir að Hillary Clinton myndi hreyfa við viðaukanum næði hún kjöri, væru vanhugsaður og óviðeigandi brandari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×