Viðskipti innlent

Vilja að ný samkeppnisbrotarannsókn fái flýtimeðferð

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála segir að þótt ekki hafi komið fram haldbærar skýringar á af hverju samningur MS við Kaupfélag Skagfirðinga hafi ekki fyrr verið lagður fram þurfi að upplýsa málin að fullu.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála segir að þótt ekki hafi komið fram haldbærar skýringar á af hverju samningur MS við Kaupfélag Skagfirðinga hafi ekki fyrr verið lagður fram þurfi að upplýsa málin að fullu. Fréttablaðið/Stefán
Samkeppniseftirlitið tekur á ný til meðferðar hugsanlega misnotkun Mjólkursamsölunnar (MS) á markaðsráðandi stöðu sinni eftir að áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi úr gildi ákvörðun eftirlitsins um 370 milljóna króna sekt á hendur MS fyrir misnotkun.

Sektina fékk félagið fyrir að selja Kú hrámjólk á hærra verði en keppinautar Kú, tengdir MS, þurftu að greiða.

MS lagði fram fyrir áfrýjunarnefndina samning við Kaupfélag Skagfirðinga frá 15. júlí 2008 sem ekki hafði komið fram áður og taldi nefndin því að rannsaka þyrfti málið betur.

„Jafnframt mun Samkeppniseftirlitið taka til rannsóknar hvaða ástæður liggja fyrir því að umræddur samningur var ekki lagður fyrir eftirlitið við rannsókn málsins, en viðurlög geta legið við því að halda upplýsingum frá eftirlitinu við rannsókn máls,“ segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins.

Einar Sigurðsson
Félag atvinnurekenda (FA) kallaði í gær eftir því að mál Mjólkurbúsins Kú gegn MS fái flýtimeðferð hjá Samkeppniseftirlitinu.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir orka tvímælis að öflug, markaðsráðandi fyrirtæki komist upp með að tefja málsmeðferðina með því að leyna Samkeppniseftirlitið gögnum sem síðan séu dregin upp við málsmeðferð hjá áfrýjunarnefnd.

„Fyrir smærri keppinauta Mjólkursamsölunnar er lykilatriði að hin nýja rannsókn fari ekki í hefðbundinn margra mánaða farveg hjá Samkeppniseftirlitinu heldur fái málið flýtimeðferð þannig að endanleg niðurstaða liggi fyrir sem fyrst. Það er sömuleiðis brýnt hagsmunamál fyrir neytendur, sérstaklega í ljósi þess að meint brot MS hafa verið á fleiri sviðum. Hjá Samkeppniseftirlitinu er til meðferðar sambærileg kvörtun frá Kú vegna sölu á rjóma og brýnt að niðurstaða í því máli fáist sem fyrst,“ segir Ólafur.

Í tilkynningu sem MS sendi frá sér vegna málsins segir Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar, um áfangasigur að ræða.

„Málið telst ekki rannsakað til þeirrar niðurstöðu sem kynnt var og 370 milljóna króna sektin verður nú endurgreidd félaginu,“ er haft eftir Einari.

Ólafur M. Magnússon
Þá lýsa forsvarsmenn Kú í tilkynningu furðu sinni á að MS í Reykjavík skuli hafa „leynt samningi, sem fyrirtækið segist nú hafa gert við Kaupfélag Skagfirðinga“.

Vinnubrögðin eru sögð til þess fallin að draga málið á langinn „og vekja spurningar um hvort fleiri leyniskjöl eigi eftir að koma fram“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×