Innlent

Vilja að ferðamenn á Íslandi auki neyslu

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Fjölga á heimsóknum ferðamanna til Íslands að vetri til og stefnt er að því að 90 prósent gestanna verði ánægð með Íslandsförina.
Fjölga á heimsóknum ferðamanna til Íslands að vetri til og stefnt er að því að 90 prósent gestanna verði ánægð með Íslandsförina. Pjetur/Fréttablaðið
Ríki og borg ásamt samstarfsaðilum ætla að verja samtals 1.120 milljónum króna í markaðsátakið Ísland allt árið á næstu tveimur árum.

Samkvæmt samkomulaginu ætlar ríkið að leggja fram 760 milljónir króna gegn því að Icelandair greiði 200 milljónir, Samtök ferðaþjónustunnar 80 milljónir og Reykjavíkurborg og Landsbankinn borgi 40 milljónir hvor aðili. Verkefninu verðu stýrt af Íslandsstofu undir merkjum Inspired by Iceland.

Ætlunin er að fá ferðamenn til að auka neyslu sína hérlendis um allt að 4 prósent árlega og freista þess að draga úr árstíðasveiflum þannig að fleiri heimsæki landið utan sumarsins. Um 20 prósenta fjölgun verði á vetrargestum milli ára. Þá er stefnt að því að ánægja ferðamanna með Íslandsförina fari ekki undir 90 prósent að meðaltali.

„Helstu markmið verkefnisins eru að jafna árstíðasveiflu í ferðaþjónustu, auka meðalneyslu ferðamanna per dag, bæta viðhorf og vitund gagnvart Íslandi sem heilsársáfangastað og festa þar með ferðaþjónustu í sessi sem heilsársatvinnugrein á Íslandi,“ segir í greinargerð sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lagði fram í borgarráði.

Fram kemur að Íslandsstofa hafi látið meta virði verkefnisins árin 2012 og 2013. Þá hafi umfjöllun í erlendum miðlum verið metin á samtals 2,3 milljarða króna á sextíu mismunandi mörkuðum.

„Fáum dettur til hugar að innspýting í markaðssetningu upp á um það bil 500 milljónir króna á ári til viðbótar við reglubundið kynningarstarf Íslandsstofu, Iceland Naturally, Höfuðborgarstofu, Meet in Reykjavík og fjölmargra fyrirtækja í greininni hafi ekki sitt að segja í því að þróunin hefur verið svo ör,“ segir í greinargerðinni.

Auk þeirra aðila sem fyrr eru nefndir hefur verið stefnt að því að fleiri kæmu að verkefninu með 20 milljóna króna lágmarksframlag hver. Undirtektir eru ekki góðar. „Auglýst var eftir áhugasömum þátttakendum í byrjun þessa mánaðar og rann umsóknarfrestur út þann 15. desember án þess að umsóknir hefðu borist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×