Innlent

Vilja að Bjarni skipi konu í ráðherraembætti

Atli Ísleifsson skrifar
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/GVA
Stjórn Landssambands sjálfstæðiskvenna skorar á Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, að skipa konu í embætti innanríkisráðherra. „Nú þegar skipa á nýjan innanríkisráðherra er minnt á mikilvægi þess að gæta að kynjahlutföllum í ríkisstjórn,“ segir í ályktun frá samtökunum.

Í ályktuninni skorar stjórnin á Bjarna „að hafa jöfn hlutföll kynja að leiðarljósi þegar ákvörðun verður tekin um skipan í ráðherraembætti. Samhljóma ályktun hefur þegar verið lögð fram af Kvenréttindafélagi Íslands“.

Stjórnin harmar jafnframt brotthvarf Hönnu Birnu Kristjánsdóttur af stóli innanríkisráðherra og úr ríkisstjórn. „Það er sárt að sjá á bak dugmiklum og réttsýnum ráðherra og mikill missir er að Hönnu Birnu úr ríkisstjórn Íslands. Samfélagið og Sjálfstæðisflokkurinn þurfa á sterkum stjórnmálamönnum af báðum kynjum að halda. Það er verulega umhugsunarvert og alvarlegt áhyggjuefni þegar öflugur stjórnmálamaður segir af sér embætti vegna þess hve óvæginn starfsvettvangurinn er.

Stjórn LS fagnar því að Hanna Birna ætli áfram að gegna varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum og þingmennsku og óskar henni velfarnaðar og vinnufriðar þegar hún snýr aftur eftir frí.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×