Viðskipti innlent

Vildu lækka laun bæjarstjórans í Hveragerði í milljón á mánuði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aldís Hafsteinsdóttir.
Aldís Hafsteinsdóttir.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, fær 1,1 milljón króna í mánaðarlaun næstu fjögur árin. Hún var áður með 1.050 þúsund krónur í mánaðarlaun. Þá heldur hún bifreiðastyrk upp á 1300 km á mánuði. Meirihlutinn felldi tillögu minnihlutans um að lækka laun bæjarstjórans á fundi bæjarráðs í síðustu viku. Sunnlenska greindi fyrst frá.

Njörður Sigurðsson, fulltrúi Samfylkingar í bæjarráði, lagði fram breytingartillöguna. Stærstu tillögurnar voru lækkun mánaðarlauna um 50 þúsund krónur auk þess sem lagt var til að bæjarstjórinn fengi bifreiðastyrk í samræmi við akstursbók.

Rökstuðningur minnihlutans fólst í því að laun framkvæmdastjóra sveitarfélaga af svipaðri stærð og Hveragerði væri 975 - 1074 þúsund krónur á mánuði. Lægstu laun væru 800-899 þúsund en hæstu 1100-1199 þúsund á mánuði. Var vísað í önnun Sambands íslenskra sveitarfélaga.

„Launakjör skv. framlögðum ráðningasamningi við bæjarstjóra í Hveragerði er því í hæsta lagi og yfir meðaltali. Því er lagt til að föst laun bæjarstjóra sem tilgreind eru í 4. gr. samningsins endurspegli meðaltalskjör framkvæmdastjóra sveitarfélaga að svipaðri stærð og Hveragerði,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Þá var bent á að 1300 km akstur svaraði til þess að bæjarstjóri keyrði allar götur í Hveragerði 50 sinnum í mánuði. Þá væri óeðlilegt að bæjarstjóri fengi bifreiðastyrk í sumarleyfi og á biðlaunum eins og sé tilgreint í ráðningarsamningnum.

Fleiri breytingartillögur á ráðningarsamningnum voru gerðar svo sem varðandi uppsögn samningsins og afgerandi orðalag þess efnis að ekki yrði greitt fyrir yfirvinnu. Meirihlutinn felldi allar tillögur minnihlutans.

Aldís hefur gegnt stöðu bæjarstjóra í Hveragerði fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2006.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×