Innlent

Vildi skýrara umboð eftir landsfund

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Formaður Samfylkingarinnar segir að hann hefði viljað kalla fram allsherjaratkvæðagreiðslu flokksmanna sinna eftir síðasta landsfund til að fá skýrara umboð frá flokksmönnum. En hann vann formannskosningu á landsfundi með aðeins eins atkvæðis mun.

Það vakti athygli þegar Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður Samfylkingarinnar tilkynnti með sólarhringsfyrirvara að hún ætlaði að fara gegn Árna Páli Árnasyni formanni flokksins á landsfundi sem haldinn var í mars á þessu ári. Árni Páll var naumlega endurkjörinn formaður með aðeins eins atkvæðis mun.

Árni Pál fékk 241 atkvæði en Sigríður Ingibjörg 240. Árni Páll var gestur Sigurjóns M. Egilssonar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun þar sem hann ræddi stöðu Samfylkingarinnar og sína eigin inna flokksins.

„Sá landsfundur fór eins og hann fór og mín fyrstu viðbrögð eftir hann, voru að ég hugsaði með mér: Get ég ekki með einhverjum hætti fengið skýrara umboð? og mig langaði mest til þess að reyna að finna einhverja leið til þess að kalla fram allsherjaratkvæðagreiðslu flokksmanna,“ sagði Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar.

„Ég var kjörinn í allsherjaratkvæðagreiðslu og vann þar með miklum meirihluta. Ég vildi bara fá að leggja verk mín og hugmyndir mínar í dóm allra flokksmanna. Það er því miður ekki hægt eins og lögin okkar eru.“

Árni sagði Samfylkinguna búa við stífa lagaumgjörð, sem væri ef til vill eitt af því sem þyrfti að skoða vilji Samfylkingin vera meiri fjöldahreyfing.

„Formaður er kjörinn til tveggja ára og það er ekki hægt að halda landsfundi nema annað hvert ár. Þessa grundvallarreglu verður maður að virða. Ég gat ekkert óskað eftir allsherjaratkvæðagreiðslu til að fá skýrara umboð. Það verður að bíða formannskjörs sem að getur ekki farið fram fyrr en eftir tvö ár, 2017.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×