Viðskipti innlent

Vildi forðast að lenda í kvennafarvegi

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Sigríður hefur orðið tíma til að rækta eigin garð eftir að hún hætti að sinna verkfræðistörfum.
Sigríður hefur orðið tíma til að rækta eigin garð eftir að hún hætti að sinna verkfræðistörfum. Fréttablaðið/Arnþór
"Sem unglingi gekk mér frekar vel í stærðfræði, eðlisfræði og teikningu og sú hugsun var rík í mér að láta kynferði mitt ekki aftra mér frá því að læra það sem mér dytti í hug. Ég vildi verða sjálfstæð í lífinu og umfram allt forðast að lenda í einhverjum kvennafarvegi," segir Sigríður Á. Ásgrímsdóttir sem lauk námi í rafmagnsverkfræði árið 1968 fyrst íslenskra kvenna.

"Ég átti tvær föðursystur sem voru einhleypar og barnlausar, alltaf flottar dömur og ekki bundnar á klafa hjónabands, barneigna og heimilisbasls. Í mínum huga var það stórglæsilegt. Ég var samt ekki í neinni kvenfrelsisbaráttu nema fyrir sjálfa mig," tekur hún fram.

Sigríður hlaut viðurkenningu nýlega frá kvennadeild Verkfræðingafélagsins, ásamt þremur öðrum íslenskum konum sem riðu á vaðið í verkfræðinámi.

"Ég hefði viljað fara í arkitektúr en sú grein var ekki kennd hér á landi og fjárhagsins vegna varð ég að fara í eitthvað sem var kennt við Háskóla Íslands. Verkfræðin varð fyrir valinu. Ég vissi ekkert hvernig mér myndi líka námið en huggaði mig við að fyrst ég væri hér heima gæti ég séð mig um hönd og farið í annað. Þá var tveggja ára nám í byggingarverkfræði í boði við HÍ og ekki hægt að útskrifa verkfræðinga á Íslandi heldur samið við tækniháskólann í Þrándheimi og verkfræðiskólann í Kaupmannahöfn um taka við nemendum þannig að þeir lykju náminu þar."

Jóhanna Harpa Árnadóttir, fyrrverandi formaður VFÍ, Kristján Hallberg sem tók við viðurkenningu móður sinnar, Kristínar Kristjánsdóttur Hallberg, sem er látin en lauk prófi í efnaverkfræði 1945, Guðrún Hallgrímsdóttir sem lauk prófi í matvælaverkfræði 1968, Sigrún Helgadóttir sem lauk prófi í byggingarverkfræði 1966, Sigríður Á. Ásgrímsdóttir rafmagnsverkfræðingur og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, sem afhenti viðurkenningarnar.
Sigríður skellti sér til Þrándheims í rafmagnsverkfræði þó sú grein rúmaðist ekki innan þess samnings sem var á milli háskólanna.

"Ég þurfti að taka aukafög og leggja mikið á mig. Þetta var púl en mér tókst að ljúka náminu, án þess að bæta við ári," rifjar hún upp. Hún var eina konan í rafmagnsverkfræði í Þrándheimi á þeim tíma. "Stúlkurnar fóru frekar í efnaverkfræði og matvælaverkfræði," segir hún.

Hvernig gekk svo þegar heim var komið?

"Það var kreppa þá og atvinnuleysi og ég fékk ekki starf við það sem ég hafði sérhæft mig í í Noregi. En ég fékk vinnu almenns eðlis sem rafmagnsverkfræðingur hjá Orkustofnun og síðar hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Um tíma fékkst ég líka við kennslu," segir Sigríður, sem fljótlega eftir heimkomuna var komin með fjölskyldu.

"Ég kynntist manninum mínum í vinnunni. Við vorum sett saman á skrifstofu og bara bingó. Þetta var allt orkumálastjóra að kenna!"

Sigríður hætti verkfræðistörfum fyrir þremur árum. "Nú er ég bara að sinna garðinum, spila á gítar, syngja í kór, passa barnabörn, sauma og allt mögulegt skemmtilegt sem ég hafði engan tíma til þegar ég var að vinna utan heimilis."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×