Innlent

Vilborg Arna: „Get ekki réttlætt áframhaldandi för“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Vilborg er stödd í grunnbúðum Everestfjalls.
Vilborg er stödd í grunnbúðum Everestfjalls. vísir/getty
Vilborg Arna Gissurardóttir, annar Íslendinganna í grunnbúðum Everestfjalls, segist ekki geta réttlætt áframhaldandi för á fjallið að svo stöddu.

Leiðsögumenn hafa lagt niður störf og undirbúa nú brottför af fjallinu. Engar ferðir verða því á tind fjallsins það sem eftir er árs en þrettán Sjerpar létu lífið í snjóflóði á Everestfjalli á föstudag og þriggja er enn saknað. Leiðsögumennirnir krefjast meðal annars hærri launa og líftrygginga.

„Ég er búin að hugsa mikið og skoða þá kosti sem mér stóðu til boða,“ skrifar Vilborg á Facebook-síðu sína. „Niðurstaðan er sú að að svo stöddu get ég ekki réttlætt áframhaldandi för á fjallið af minni hálfu. Ef eitthvað breytist á næstu dögum meðan ég er enn á svæðinu mun ég endurskoða ákvörðun mína. Takk fyrir allan stuðninginn síðustu daga.“

Ingólfur Axelsson sagði í samtali við fréttastofu í morgun að hann hefði trú á því að deilan leystist. „Mér líður pínu eins og sjö ára krakka sem er sagt það verði engin jól. Þetta er lífsviðurværi Sjerpanna og slík ákvörðun skaðar starfsemina til frambúðar. Þannig að þetta mun leysast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×