Fótbolti

Víkingar náðu bara jafntefli á móti ÍR í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnþór Ingi Kristinsson fékk rautt.
Arnþór Ingi Kristinsson fékk rautt. Vísir/Andri Marinó
Pepsi-deildarlið Víkinga og 2. deildarlið ÍR gerðu 3-3 jafntefli í Egilshöllinni í kvöld í fyrsta leik Reykjavíkurmóts karla í fótbolta í ár.

Víkingar komust í 2-0 og 3-1 í fyrri hálfleik en fengu á sig tvö mörk í seinni hálfleiknum og enduðu manni færri síðustu tólf mínútur leiksins.

Stefán Þór Pálsson skoraði tvö mörk fyrir Víkinga og átti þátt í öllum þremur mörkum liðsins því hann fiskaði einnig vítið sem Ívar Örn Jónsson skoraði úr.

Jóhann Arnar Sigurþórsson, Andri Jónasson og varamaðurinn Arnór Björnsson skoruðu mörk ÍR í leiknum.

Stefán Þór skoraði fyrra markið sitt á 8. mínútu eftir að hafa fylgt eftir sláarskoti Viktors Bjarka Arnarssonar og Ívar Örn Jónsson skoraði síðan annað markið úr víti aðeins fjórum mínútum síðar.

Jóhann Arnar Sigurþórsson minnkaði muninn fyrir ÍR á 22. mínútu en Stefán Þór kom Víkingum aftur tveimur mörkum yfir á 33. mínútu eftir sendingu frá Iain James Williamson.

Andri Jónasson minnkaði muninn í 3-2 á 50. mínútu. Arnór Björnsson skoraði síðan jöfnunarmarkið á 62. mínútu leiksins eftir að komist einn í gegn á móti Róberti Erni Óskarssyni, markverði Víkinga.

Víkingar enduðu tíu á móti ellefu eftir að Arnþór Ingi Kristinsson fékk tvö rauð spjöld með fimmtán mínútna millibili en seinna gula kom á 78. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×