Handbolti

Víkingar hefndu sín á KR og komust í 16 liða úrslitin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ægir Hrafn Jónsson skoraði fjögur mörk.
Ægir Hrafn Jónsson skoraði fjögur mörk. vísir/stefán
Víkingur pakkaði KR saman með sjö mörkum, 25-18, þegar liðin mættust í 32 liða úrslitum Coca Cola-bikars karla í handbolta í Víkinni í kvöld.

Með sigrinum komust Víkingar áfram í 16 liða úrslitin en heimamenn í Víkinni spiluðu frábæran varnarleik í fyrri hálfleik þar sem þeir fengu aðeins á sig fimm mörk og voru 16-5 yfir.

KR vann fimm marka sigur á Víkingi, 24-19, í fyrstu umferð 1. deildar karla í handbolta í vetur og náðu Víkingar því að koma fram hefndum í kvöld með því að fella vesturbæjarliðið í bikarnum.

Víglundur Jarl Þórsson var markahæstur með fimm mörk hjá Víkingum en línumaður þrautreyndi Ægir Hrafn Jónsson skoraði fjögur mörk. Gamla brýnið Arnar Jón Agnarsson skoraði fimm mörk fyrir KR-inga en Viktor Orri Þorsteinsson kom næstur með fjögur mörk.

Sjö lið eru komin áfram í 16 liða úrslitin; Víkingur, Grótta, Afturelding, Stjarnan, HK, Fram og Selfoss, en á laugardaginn mætast ÍBV 2 og Mílan í síðasta leik 32 liða úrslitanna.

Víkingur - KR 25-18 (16-5)

Mörk Víkings: Víglundur Jarl Þórsson 5, Ægir Hrafn Jónsson 4, Logi Ágústsson 4, Birgir Már Birgisson 4, Magnús Karl Magnússon 2, Jónatan Vignisson 2, Einar Baldvin Baldvinsson 1, Guðmundur Birgir Ægisson 1.

Mörk KR: Arnar Jón Agnarsson 5, Viktor Orri Þorsteinsson 4, Eyþór Hilmarsson 3, Hrafn Valdísarson 1, Þórir Jökull Finnbogason 1, Andri Berg Haraldsson 1, Sigurbjörn Markússon 1, Bergur Elís Rúnarsson 1.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×