Fótbolti

Víkingaklappið myndar ógleymanleg tengsl milli leikmanna og stuðningsmanna

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Einstök stund frá EM í Frakklandi
Einstök stund frá EM í Frakklandi vísir/vilhelm
Bandaríska NFL liðið Minnesota Vikings hefur fengið víkingaklappið og Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliða Íslands með sér í lið.

Vikings mun vígja nýjan völl í kvöld þegar liðið fær Green Bay Packers í heimsókn og tjaldar liðið öllu til að búa til magnaða stemningu. Víkingaklappið, Aron Einar og aflraunatröllið Hafþór Júlíus Björnsson munu taka stóran þátt í hálfleikssýninguliðsins.

Vikings fékk sérstakt leyfi til að lengja hálfleikinn í kvöld, slík verður sýningin en Aron Einar og Hafþór munu birtast á risaskjá.

Vikings er byrjað að hita upp fyrir leikinn og birtu nú fyrir stundu viðtal við Aron Einar á twitter- síðu sinni þar sem Aron Einar útskýrir þýðingu víkingaklappsins fyrir sér.

„Víkingaklappið var augljóslega mjög sérstakt, sérstaklega þegar við spilum heimaleikina á Íslandi. Við vitum að hitt liðið hræðist það sem er að gerast,“ segir Aron Einar.

„Við vitum hvað er að gerast en andstæðingurinn verður áhyggjufullur.

„Þetta hefur mikla þýðingu fyrir okkur Íslendinga og lengi megi það halda áfram.

„Þetta er ógleymanlegt og myndar tengslin milli stuðningamanna og leikmanna því við gerum þetta saman,“ segir íslenski landsliðsfyrirliðinn.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×