Handbolti

Vignir fagnaði sigri á löndum sínum og deildarmeisturum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vignir Svavarsson.
Vignir Svavarsson. vísir/daníel
Vignir Svavarsson og félagar í Tvis Holstebro unnu í kvöld tveggja marka sigur á deildarmeisturum Álaborgar í lokaumferð deildarkeppninnar.

Vignir Svavarsson skoraði þrjú mörk í leiknum og varð þriðji markahæstur hjá sínu liði sem vann leikinn 26-24 eftir að hafa verið 16-12 yfir í hálfleik.  Tvis Holstebro náði þrátt fyrir sigurinn ekki að hækka sig í deildinni og endar í þriðja sætinu.

Aron Kristjánsson, þjálfari AaB Håndbold, er þegar búinn að gera lið sitt að deildarmeisturum og því skiptu úrslit leiksins í kvöld ekki máli fyrir Aron og lærisveina hans.

Það er nóg af Íslendingum í deildarmeistaraliði Álaborgar. Stefán Rafn Sigurmannson skoraði fjögur mörk og varð næstmarkahæstur í liðinu en Janus Daði Smárason skoraði þrjú mörk. Þá var Arnór Atlason með tvö mörk.

Århus GF vann fjögurra marka sigur á Skjern, 37-33, í öðrum Íslendingaslag í kvöld. Sigvaldi Guðjónsson skoraði sex mörk fyrir Århus, Róbert Gunnarsson var með tvö mörk og Ómar Ingi Magnússon skoraði eitt. Tandri Már Konráðsson komst ekki á blað hjá Skjern.

Viggó Kristjánsson skoraði fjögur mörk þegar Randers HK tapaði 26-20 á heimavelli á móti Skanderborg Håndbold. Arnór Freyr Stefánsson varði 3 af 11 skotum sem komu á hann í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×