Handbolti

Vignir færir sig um set í Danmörku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vignir færir sig um set í Danmörku eftir tímabilið.
Vignir færir sig um set í Danmörku eftir tímabilið. vísir/eva björk
Landsliðsmaðurinn Vignir Svavarsson hefur gert tveggja ára samning við danska handboltaliðið Team Tvis Holstebro.

Vignir, sem er 35 ára, leikur nú með Midtjylland en hann færir sig um set til Team Tvis að tímabilinu loknu. Tveir Íslendingar leika með Team Tvis, þeir Sigurbergur Sveinsson og Egill Magnússon. Liðið er í 5. sæti dönsku deildarinnar með sex stig eftir fimm leiki. Midtjylland er einnig með sex stig en eftir sex leiki.

„Við erum að fá reynslumikinn leikmann sem þekkir danska handboltann,“ sagði Patrick Westerholm, þjálfari Team Tvis, um Vigni.

„Hann hefur verið einn af bestu leikmönnum deildarinnar í sinni stöðu á undanförnum árum og er sterkur á báðum endum vallarins. Við erum ekki með svona leikmann í okkar röðum og ég er virkilega ánægður að hann ákvað að koma til okkar.“

Líkt og Westerholm segir þekkir Vignir vel til í dönsku deildinni en hann lék með Skjern á árunum 2005-08 en þaðan kom hann frá uppeldisfélaginu Haukum.

Á árunum 2008-14 lék Vignir með þremur liðum í Þýskalandi; Lemgo, Hannover-Burgdorf og Minden, áður en hann fór til Midtjylland sumarið 2014. Vignir vann EHF-bikarinn með Lemgo 2010.

Vignir hefur leikið 224 landsleiki fyrir Íslands hönd og skorað í þeim 249 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×