Handbolti

Vignir: Var í skrýtnu félagi með skrýtinn þjálfara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vignir í leik með Minden á síðustu leiktíð.
Vignir í leik með Minden á síðustu leiktíð. Vísir/Getty
Línumaðurinn Vignir Svavarsson segist hæstánægður með að vera kominn aftur til Danmerkur eftir sex ára dvöl í Þýskalandi. Vignir gekk í sumar í raðir Midtjylland frá þýska liðinu Minden.

„Ég átti erfitt ár í fyrra. Þá var ég hjá skrýtnu félagi og með skrýtinn þjálfara. En ég er búinn að finna gleðina á ný,“ sagði Vignir í samtali við Vísi en hann verður í eldlínunni með landsliði Íslands sem mætir Ísrael í undankeppni EM 2016 í kvöld.

Vignir var að glíma talsvert við meiðsli á síðustu leiktíð auk þess sem hann fékk ekki mikið að spila hjá þjálfaranum Goran Perkovac.

Hann ákvað því að snúa aftur til Danmerkur þar sem hann hóf atvinnumannaferil sinn árið 2005 er hann gekk í raðir Skjern. Aron Kristjánsson, núverandi landsliðsþjálfari, var þá þjálfari liðsins.

Vignir spilar nú með Midtjylland sem er nýliði í dönsku úrvalsdeildinni og segir byrjunina á tímabilinu hafa verið vonum framar. „Við erum með lið sem getur unnið alla en líka tapað fyrir öllum liðum ef við hittum ekki á réttan dag. En einbeitingin hjá okkur hefur verið góð og við erum í öðru sæti deildarinnar. Það eru allir sáttir við það.“

Landsliðið kemur nú saman fyrir fyrstu leiki Íslands í undankeppni EM 2016 en strákarnir mæta Ísrael í Laugardalshöllinni í kvöld. Það verður fyrsti landsleikurinn eftir Bosníuleikina í júní þar sem Íslands varð af þátttökurétti á HM í Katar.

Vignir í leik á EM í Danmörku fyrr á þessu ári.Vísir/Daníel
„Það er alltaf gaman að hitta strákana og það er góður andi á æfingunum. Við vorum allir mjög ósáttir við hvernig þetta fór í sumar en við ætlum að nýta tækifærið, byrja á núlli og sýna hvað við getum.“

„Frammistaðan í leikjunum gegn Bosníu var hvorki falleg né okkur til sóma. Við vorum allir brjálaðir og hundsvekktir í allt sumar. En nú er það bara búið og ekkert við því að gera.“

„Þetta snýst bara um hvað við getum gert næst og það er að tryggja okkur inn á EM.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×