Handbolti

Vignir: Gaman að sjá Gumma öskra á hina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
Vignir Svavarsson.
Vignir Svavarsson. Vísir/Eva Björk
Leikmenn íslenska landsliðsins voru í góðu skapi þegar þeir hittu fjölmiðlamenn á hóteli sínu í Doha í morgun en Vignir Svavarsson segir að sigurinn á Egyptalandi í gær hafi vitanlega farið vel í menn.

„Þessi leikur situr bara vel í okkur. Við unnum en við vorum ekkert frábærir og ég held að við vitum alveg að það var margt sem við hefðum getað gert betur. Við þurfum að bæta úr því fyrir morgundaginn,“ sagði Vignir en viðtalið má heyra í heild sinni efst í fréttinni.

Ísland mætir Danmörku í 16-liða úrslitum keppninnar á morgun og ljóst að strákarnir þurfa að eiga sinn besta dag til að leggja Dani að velli.

Strákarnir unnu Dani í æfingaleik í upphafi mánaðarins en Vignir segir að það hafi ekkert að segja. „Ekki neitt. Æfingaleikir gefa einhverja mynda af stöðu liðanna en þeir eru helst nýttir til að gefa leikmönnum tækifæri og prófa ýmislegt.“

„Við unnum þennan leik með einu marki og það eina sem það segir manni að þetta séu svipuð lið. Það þurfti ekki æfingaleik til að segja mér það.“

Guðmundur Guðmundsson, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, verður nú við varamannabekk hins liðsins og Vignir segir að það hafi verið gaman að mæta honum í æfingaleiknum í Álaborg.

„Það var gaman að sjá hann skoppa á hliðarlínunni og öskra á hina - ekki mann sjálfan. Það var skemmtilegt en það er alltaf gaman að spila við Dani, hvort sem Gummi er þar eða einhver annar. En við erum að leikgreina liðið, ekki þjálfarann.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×