Innlent

Viðvörunarorð Bjargar um stjórnarskrána hundsuð af meirihlutanum á Alþingi

Heimir Már Pétursson skrifar
Björg Thorarensen telur tilskipunina ekki rúmast innan ramma stjórnarskrár.
Björg Thorarensen telur tilskipunina ekki rúmast innan ramma stjórnarskrár. Vísir/Vilhelm
Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar samþykkti í morgun að afgreiða út úr nefndinni þingsályktun um tilskipun Evrópusambandsins um fjármálaþjónustu, sem helsti sérfræðingur þjóðarinnar í stjórnskipunarrétti telur að brjóti gegn stjórnarskrá. Atkvæðagreiðsla um ályktunina hófst á Alþingi skömmu fyrir klukkan 12.

Atkvæðagreiðslu um innleiðingu ESB tilskipunar um fjármálaþjónustu var frestað á Alþingi í gær vegna efasemda sem komu um að hún stæðist stjórnarskrána. Málið fór til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem fundaði um málið í gær og svo aftur í morgun. Þar var lögð fram greinargerð frá Björgu Thorarensen, helsta sérfræðingi þjóðarinnar í stjórnskipunarrétti, en hún hafði áður viðrað opinberlega skoðanir sínar um að tilskipunin rúmaðist ekki inna ramma stjórnarskrárinnar.

Í greinargerðinni rekur Björg þróun mála allt frá gildistöku EES samningsins árið 1992 þar sem gert sé ráð fyrir framsali á fullveldi til yfirþjóðlegra stofnana á takmörkuðu sviði, þ.e.a.s. í samkeppnismálum.  Björg segir augljóst að framsalið fari ekki lengur fram á þessu takmarkaða sviði. Samkvæmt tilskipuninni um fjármálaþjónustu geti úrræði verið afar íþyngjandi fyrir innlenda aðila. Dæmi um  það sé að  ESA geti stöðvað rekstur fyrirtækja á fjármálamarkaði. Niðurstaðan sé að meginforsendan frá 1992 sé brostin.

Þrátt fyrir þessi aðvörunarorð Bjargar ákvað meirihluti stjórnsýslu- og eftirlitsnefndar í morgun að senda málið á ný til atkvæðagreiðslu á Alþingi í dag, sem kom Árna Páli Árnasyni fulltrúa Samfylkingarinnar í nefndinni á óvart.

Tillaga frá minnihlutanum um að bætt verði ákvæði um framsal fullveldis í stjórnarskrána, fellt í stjórnskipunar og eftirlitsnefnd.Vísir
Undrandi á ákvörðun meirihlutans

„Já ég var satt að segja mjög hissa á því að meirihluti nefndarinnar felldi tillögu sem ég lagði fram um að við myndum leita samstöðu allra flokka um að setja framsalsákvæði í stjórnarskrána. Sem gerði framsal af þessum toga mögulegt. Þannig að allir flokkar gætu verið sammála um það en það var fellt,“ segir Árni Páll.

Þar með hafi meirihlutinn ákveðið að bregðast ekki við ábendingum Bjargar og Stefáns Más Stefánssonar fyrrverandi prófessors sem einnig telji að tilskipunin rúmist ekki innan stjórnarskrárinnar.

„Með þessum framgangi er stjórnarmeirihlutinn einfaldlega að segja að það ákvæði stjórnarskrárinnar um að íslensk stjórnvöld eigi að fara með stjórnvald á Íslandi þýði ekki neitt. Og að Alþingi geti á hverjum tíma framselt hvaða alþjóðastofnun sem er það vald,“ segir Árni Páll.

Það standi hvergi í stjórnarskránni að heimilt sé að framselja vald til alþjóðastofnana þótt menn hafi talið það heimilt á takmörkuðum sviðum. Þess vegna sé nauðsynlegt að setja ákvæði um þau mál í stjórnarskrána.

Árni Páll Árnason alþingismaður.
Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Ögmundi Jónassyni formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem er staddur í útlöndum, að hann sé á móti því að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrá. Það myndi auðvelda Íslendingum að kokgleypa allt sem frá Brussel kæmi.

„Ég held að það sé alger misskilningur hans á eðli málsins. Ef það væri framsalsákvæði í stjórnarskrá sem afmarkaði hvað hægt væri að gera, myndi það þvert á móti takmarka möguleika til að afhenda alþjóðastofnunum vald. Núna er staðan sú að stjórnarmeirihlutinn er að skapa það fordæmi að það mun ekki þurfa að breyta stjórnarskránni ef við göngum í Evrópusambandið. Ef meirihluti Alþingis ákveður eitthvað er bara hægt að gera hvað sem er. Jafnvel þótt stjórnarskráin segi eitthvað annað. Það er fordæmið sem nú er verið að skapa,“ segir Árni Páll Árnason.

Atkvæðagreiðsla um tillöguna hófst rétt fyrir klukkan tólf.  Reikna má með að hún standi yfir í all nokkurn tíma, þar sem þingmenn munu margir gera grein fyrir atkvæði sínu og þurfa að ræða fundarstjórn forseta áður en lokaatkvæðagreiðslan fer fram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×