Innlent

Viðurkenndi að hafa brotið trúnað um aðgerðir Seðlabankans fyrir setningu neyðarlaga

Atli Ísleifsson skrifar
Sturla Pálsson.
Sturla Pálsson. Vísir/GVA
Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands, viðurkenndi í yfirheyrslum hjá embætti sérstaks saksóknara árið 2012 að hafa brotið trúnað þegar hann greindi eiginkonu sinni frá aðgerðum Seðlabankans dagana fyrir setningu neyðarlaganna í október 2008.

Eiginkona Sturlu starfaði á þeim tíma sem lögmaður Samtaka fjármálafyrirtækja, málsvara fjármálafyrirtækja, og þar með banka, í hagsmunamálum þeirra.

Í skýrslu sérstaks saksóknara, sem fréttastofa hefur undir höndum, kemur fram að Sturlu hafi verið kynnt skjal við yfirheyrslu þar sem væri endurritað símtal milli hans og eiginkonu sinnar að kvöldi laugardagsins 4. október þar sem hann greinir henni frá því að hugsanlega yrði einum bankanna þriggja bjargað.

Þá sagði hann Sigurjón Þ. Árnason, þáverandi bankastjóra Landsbankans, hafa verið hættan að hringja í Seðlabankann, vera „búinn að kasta inn handklæðinu, hann [væri] búinn að gefast upp. Einnig kemur fram að það séu bara Kaupþingsmenn núna og Landsbankinn sé farinn og ECB [Evrópski seðlabankinn] muni triggera það,“ að því er haft er eftir Sturlu.

Við yfirheyrslur hjá sérstökum saksóknara sagðist Sturla kannast við símtalið og kvaðst hann „náttúrulega vera að brjóta trúnað með því að ræða þetta við konuna sína.“

Ljóst var að dagana áður en neyðarlögin voru sett, hafi einstaklingar með slíkar innherjaupplýsingar getað nýtt sér upplýsingar um raunverulega stöðu bankanna við opnun markaða á mánudeginum. Neyðarlögin voru svo samþykkt að síðla dags, mánudagsins 6. október 2008.


Tengdar fréttir

Skipti um síma til að hljóðrita samtalið

Davíð Oddsson þáverandi Seðlabankastjóri skipti sérstaklega um síma til að hann gæti hljóðritað samtal sem hann átti við Geir H Haarde þáverandi forsætisráðherra um umdeilt neyðarlán til Kaupþings. Davíð taldi ólíklegt að ríkið myndi fá lánið greitt til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×