Enski boltinn

Viðurkenna ekki stoðsendinguna hans Gylfa á móti Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið maðurinn á bak við tvö sigurmörk Swansea á síðustu fjórum dögum en velska liðið fór langt með að bjarga sér frá falli úr ensku úrvalsdeildinni með sigurleikjum á móti Arsenal og Norwich.

Gylfi skoraði sigurmarkið á móti Norwich í gær og hafði áður lagt upp sigurmark Ashley Williams í sigrinum á Arsenal á miðvikudagskvöldið.

Enska úrvalsdeildin var þó ekki tilbúinn að samþykkja það að Gylfi fái stoðsendingu í þessu marki Ashley Williams sem má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Gylfi tók aukaspyrnu út á hægri kanti og sendi frábæran bolta fyrir markið. Ashley Williams þurfti nánast ekkert að gera því boltann fór eiginlega í hann og inn.

Það virðist hinsvegar vera þannig að örlítil snerting Petr Cech, markvarðar Arsenal, hafi verið nóg til að koma í veg fyrir að Gylfi fengi skráða á sig stoðsendingu.

Það er illa farið með tölfræði íslenska landsliðsmannsins með þessari stórfurðulegu ákvörðun markanefndar ensku úrvalsdeildarinnar.

Þær gerast nefnilega varla meiri stoðsendingarnar en í þessu mikilvæga marki Ashley Williams. Föst aukaspyrna Gylfa inn á markteiginn var illviðráðanlega fyrir varnarmenn og markmann Arsenal og gaf Ashley Williams tækifæri til að skora sitt annað mark á tímabilinu.

Gylfi hefur því enn bara lagt upp eitt mark í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili samkvæmt tölfræði ensku úrvalsdeildarinnar. Sú stoðsending kom í sigurleik á móti Manchester United í ágústlok.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×