Innlent

Viðskiptabann á Noreg ógnar ferskfiskmörkuðum Íslands

Áhrif viðskiptabanns Rússa á Norðmenn getur haft skaðleg áhrif á íslensk fyrirtæki í fiskframleiðslu og útflutningi á fiski. Þetta segir Jón Steinn Elíasson, formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, SFU.

Sjávarútvegur í Noregi er ríkisstyrktur og er staða Íslands veik að sumu leyti gagnvart Norðmönnum vegna þess. Ísland er sem kunnugt er, ekki á viðskiptabannlista Rússa og mun njóta góðs af því á rússneskum markaði í síldar- og loðnusölu.

Norðmenn munu vegna bannsins að öllum líkindum beita sér fyrir því enn meira á öðrum mörkuðum sem íslenskir seljendur eru á. Aðallega í sölu eldislax og þorsks.

„Þegar að þessi fiskur, sem er gríðarlegt magn, og að ég tali nú ekki um þessa aukningu sem þeir eru að spá núna, sem gæti orðið fimm til tíu prósent. Sem eru nú einhver fimmtíu til sjötíu þúsund tonn til viðbótar þess sem þeir eru þegar með. Ef þetta fer allt inn á Evrópumarkað mun það hafa áhrif á okkar ferskfiskmarkað. Það er engin spurning,“ segir Jón Steinn Elíasson.

„Þetta er tímabundið sem að þeir koma inn á markaði og lækka verðin. Norðmenn eru þekktir fyrir það að selja sína vöru. Þeir þurfa að selja hana. Þeir lækka verðið og kaupendur nýta þessa stöðu. Þetta getur haft veruleg áhrif á okkar ferskfiskmarkað sérstaklega.“

„Auðvitað mun þetta hafa áhrif á allan markaðinn, en ferskfiskmarkaðurinn getur orðið verulega illa úti,“ segir Jón Steinn.

Hann segir að litlar líkur séu á að Norðmenn muni ekki herja á evrópskan markað með krafti vegna viðskiptabannsins, en staðan sé mjög viðkvæm.

„Þetta bara þekkjum við. Sagan segir okkur hvernig þessi þróun hefur verið. Þetta gerist á hverju einasta ári. Til þess að þeir geti selt sínar vörur lækka þeir sig og verðið hrynur.“

Jóni finnst að í þessu máli þurfi utanríkisráðherra, sem og sjávarútvegsráðherra, að fara varlega.

„Þetta er mjög eldfimt mál.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×