Erlent

Viðræður um nýja stjórn á Norður-Írlandi sigla í strand

Atli Ísleifsson skrifar
Arlene Foster, leiðtogi DUP og fyrrverandi fyrsti ráðherra Norður-Írlands.
Arlene Foster, leiðtogi DUP og fyrrverandi fyrsti ráðherra Norður-Írlands. Vísir/AFP
Eftir þriggja vikna stjórnarmyndunarviðræður á Norður-Írlandi er ljóst að þær hafa siglt í strand. Þetta varð ljóst í gær. Breskur ráðherra málefna Norður-Írlands mun nú ákveða næstu skref.

Ráðherrann James Brokenshire er nú með þrjá kosti í stöðunni: að setja nýjan frest fyrir norður-írska þingið að ná saman um stjórnarmeirihluta, að boða til nýrra kosninga eða þá að láta bresku stjórnina að taka yfir stjórn Norður-Írlands að fullu.

Viðræður Lýðræðislega sambandsflokksins (DUP) og Sinn Féin hafa staðið í um þrjár vikur og hafa báðir flokkar tilkynnt að þær hafi engu skilað.

Liðsmenn DUP eru flestir mótmælendur og vilja að Norður-Írland verði áfram hluti af breska konungdæminu, en liðsmenn Sinn Féin eru að langstærstum hluta kaþólskir og vilja að Norður-Írland segi skilið við Bretland.

DUP hlaut 28,1 prósent atkvæða í nýlegum kosningum til norður-írska þingsins, en Sinn Féin 27,9 prósent.

Martin McGuinness, leiðtogi Sinn Féin, sagði af sér í janúar og sagði ástæðuna vera hjartasjúkdóm og að hann ætti í vandræðum með að starfa með Arlene Foster, leiðtoga DUP og fyrsti ráðherra Norður-Írlands. McGuinness lést í síðustu viku og voru þúsundir manna sem fylgdu honum til grafar. Michelle O'Neill tók við sem leiðtogi Sinn Féin af McGuinness.

Friðarsamkomulag fylkinganna frá árinu 1998 gerir ráð fyrir að stærstu flokkar mótmælenda og kaþólikka deili völdum í stjórn Norður-Írlands.

Uppfært 15:47:

Brokenshire hefur gefið flokkum á norður-írska þinginu nýjan frest til að ná saman um stjórnarmyndun. Sagði hann það mikil vonbrigði að það hafi enn ekki tekist og að fólk hafi engan áhuga á enn einum kosningum á Norður-Írlandi. Tvennar þingkosningar hafa farið fram á Norður-Írlandi á síðustu tólf mánuðum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×