Innlent

Viðræður í gangi á milli skattrannsóknarstjóra og seljanda gagna um skattaskjól

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
„Ég get bara sagt að það sé verið að vinna að þessu,“ segir skattrannsóknarstjóri.
„Ég get bara sagt að það sé verið að vinna að þessu,“ segir skattrannsóknarstjóri. VÍSIR/STEFÁN
Samningaviðræður eru í gangi á milli skattrannsóknarstjóra og aðila sem hefur boðið til sölu umfangsmikil gögn um eignir Íslendinga í skattaskjólum, samkvæmt heimildum Vísis. Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri vildi ekki staðfesta það en sagði þó að unnið væri að málinu. Von er á niðurstöðu um hvort gögnin verða keypt eða ekki á næstu vikum.

„Ég get bara sagt að það sé verið að vinna að þessu. Vinna að því hvort að þetta gangi eftir með þessum hætti,“ segir Bryndís. Hún segir að seljandi gagnanna hafi sjálfur sett ákveðin skilyrði. „Já við erum í sambandi við hann,“ segir hún aðspurð um hvort að samtal sé í gangi á milli aðila.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið samþykktu að kaupa gögnin með ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði komu meðal annars fram í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu um málið. Meðal skilyrða eru að greiðsla til seljanda gagnanna nemi að hámarki tilteknu hlutfalli af innheimtu þeirra skattkrafna sem af gögnunum leiðir. Ekki liggur fyrir hversu hátt hlutfallið er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×