Innlent

Viðræðum slitið fyrir annarra hönd

staðan rædd Þingað hefur verið í Karphúsinu undanfarna daga. Félög munu ræða tillögu forsætisráðherra í baklandinu í dag og nái menn saman verður skrifað undir samninginn. fréttablaðið/stefán
staðan rædd Þingað hefur verið í Karphúsinu undanfarna daga. Félög munu ræða tillögu forsætisráðherra í baklandinu í dag og nái menn saman verður skrifað undir samninginn. fréttablaðið/stefán

„Forseti ASÍ og formaður SA ákváðu í beinni útsendingu að við hefðum slitið viðræðum,“ segir Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, sem segir opinbera starfsmenn fráleitt hafa slitið viðræðum um stöðugleikasáttmála í gær.

Um kvöldmatarleytið bárust fregnir af því að opinberir starfsmenn hefðu sagt sig frá viðræðum og rætt var við fulltrúa ASÍ og SA sem staðfestu það. Eiríkur segir að menn hafi verið ósammála um áherslur og sérkennilegt sé hjá ASÍ og SA að lýsa því yfir að opinberir starfsmenn hafi slitið viðræðum, eingöngu vegna þess að þeir voru ekki á sömu skoðun og samböndin tvö.

„Fulltrúar opinberra starfsmanna vildu ekki binda hendur ríkisstjórnarinnar inn í framtíðina með því að fyrirfram væri ákveðið hvert hlutfall skatta og tilfærslna væri,“ segir Eiríkur. ASÍ og SA hafi talið það óviðunandi.

Þegar opinberir starfsmenn hafi yfirgefið Karphúsið klukkan 18 hafi þeir ákveðið að þetta hefði engin áhrif á þeirra markmið og unnið yrði að kjarasamningum á þessum nótum. „Þessi meintu slit komu okkur því í opna skjöldu.“

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kallaði samningsaðila í Stjórnarráðið í gær og kynnti þeim sáttatillögu. Hún verður kynnt í baklandi samtakanna í dag og síðan verður fundað í Karphúsinu klukkan 11.

„Þá kemur í ljós hvort við höfum eitthvað í höndunum til að skrifa undir þegar líður á daginn,“ segir Eiríkur.- kóp



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×