Innlent

Viðlagakassi þarf að vera á hverju heimili

Birta Björnsdóttir skrifar
Kassinn inniheldur allar helstu nauðsynjar til að bregðast við neyðarástandi.
Kassinn inniheldur allar helstu nauðsynjar til að bregðast við neyðarástandi.
Yfirskrift átaksins, 3 dagar, vísar til þess að viðlagakassinn svokallaði innihaldi hluti sem geri einstaklingum og fjölskyldum kleift að vera sjálfum sér nægar í þrjá daga, eigi sér stað rof á innviðum.

„Við erum að fara í þetta fyrir það fyrsta vegna þess að Land Rover verksmiðjurnar í Bretlandi, með aðkomu B&L á Íslandi, styrkja okkur til verkefnisins. Svo eru bara mýmörg dæmi í Íslandssögunni um mikilvægi þess að vera vel undirbúin,” segir Hjálmar Karlsson, verkefnisstjóri hjá Rauða krossinum.

Í viðlagakassann fara meðal annars hreinlætisvörur, langbylgjuútvarp, vatn og matur með langt geymsluþol, kerti og eldspítur, viðgerðarlímband, leikföng og spil, vasaljós og rafhlöður, vasahnífur, auka fatnaður og teppi svo fátt eitt sé nefnt.

Rauði krossinn mun á næstunni halda fræðslufundi víða um land tengt átakinu og ætla einnig inn í alla grunnskóla landsins.

„Við ætlum að gera þetta lifandi og skemmtilegt fyrir grunnskólanema og leyfum þeim að handfjatla það sem í kassanum er. Vonandi koma þau svo heim til sín að fræðslu lokinni og hvetja foreldra og aðra til að setja saman viðlagakassa," segir Hjálmar.

Hjálmar segir jafnframt mikilvægt að hvert heimili komi sér upp heimilisáætlun, svo allir séu meðvitaður um hvernig bregðast megi við ef upp koma neyðartileflli. Allar upplýsingar um viðlagakassann og heimilisáætlun má nálgast á vefsíðunni www.3dagar.is.

„Það er mjög mikilvægt að þessi kassi fyrirfinnist á hverju heimili. Það sem í honum er má svo eiginlega allt finna á hverju heimili. Aðal málið er að safna þessu saman á einn stað þar sem allir heimilismenn geta gengið að kassanum vísum," segir Hjálmar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×