Erlent

Viðbúnaður í Ósló: Sprengjusérfræðingar hafa lokið störfum

Atli Ísleifsson skrifar
Eðlisfræðibyggingin á háskólasvæðinu í Ósló.
Eðlisfræðibyggingin á háskólasvæðinu í Ósló. Mynd/Wikipedia
Sprengjusérfræðingar norsku lögreglunnar hafa nú lokið störfum eftir að hafa rannsakað hlut sem líktist sprengju á háskólasvæðinu í Ósló. Tveggja manna er enn leitað.

Lögregla hafði áður girt af svæðið á háskólasvæðinu en fyrr um nóttina hafði verið skotið á öryggisvörð. Hann hafði þá séð tvo grunsamlega menn á vappi á lóðinni og ákveðið að gefa sig á tal við þá.

Mennirnir hlupu á brott og öryggisvörðurinn elti þegar annar mannanna sneri sér við og hleypti af fjórum til fimm skotum. Eitt skotið hæfði öryggisvörðinn í bringuna, en hann sakaði lítið þar sem hann klæddist skotvesti.

Lögregla var einnig með viðbúnað á neðanjarðarlestarstöðinni Blindern, þar sem jakki, sem annar árásarmannanna er talinn hafa klæðst, fannst.

Tímalína (norskur tími):

02.45: Öryggisvörður tilkynnir lögreglu að hann hafi verið skotinn í bringuna eftir að hafa elt tvo menn sem höfðu verið á vappi í kringum eðlisfræðibygginguna á háskólasvæðinu.

06.56: Sprengjusérfræðingar eru kallaðir út eftir að hlutur sem svipar til sprengju fannst á háskólasvæðinu. Lögregla girðir af fjórar háskólabyggingar.

07:44: Rektor háskólans staðfestir að búið er að loka þeim byggingum þar sem hættuleg efni efni eru geymd, þar á meðal efnafræðibyggingu skólans.

08:49: Lögregla finnur svartan jakka sem hún telur að tilheyri öðrum árásarmannanna.

09:28: Háskólinn sendir starfsfólk heim og þá nemendur sem sækja nám í afgirtu byggingunum.

09:30: Lögregla greinir frá því að öryggisvörðurinn sé ekki alvarlega slasaður.


Tengdar fréttir

Skotárás á háskólasvæði í Osló

Lögreglan í Osló er með mikinn viðbúnað umhverfis Oslóarháskólann í Noregi eftir að hlutur, sem talinn er svipa til sprengju, fannst á svæðinu í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×