Fótbolti

Viðar Örn skoraði og tilnefndur sem framherji ársins

Anton Ingi Leifsson skrifar
Viðar fagnar marki ásamt liðsfélögum sínum.
Viðar fagnar marki ásamt liðsfélögum sínum. Vísir/Vålerenga
Viðar Örn Kjartansson skoraði enn eitt markið fyrir Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag, en hann skoraði fyrsta mark liðsins í tapi gegn Rosenborg.

Viðar Örn hélt uppteknum hætti og kom Vålerenga yfir eftir tíu mínútna leik. Niklas Gunnarsson bætti við öðru marki og staðan orðin 0-2 fyrir Vålerenga.

Heimamenn áttu hins vegar eftir að bíta frá sér. Paal Andre Helland minnkaði muninn á 26. mínútu og Mikael Dorsin jafnaði í uppbótartíma í fyrri hálfleik. Fjögur mörk í fyrri hálfleik og mikið um dýrðir á Lerkendal leikvanginum í Þrándheimi.

Morten Gamst Pedersen, fyrrum leikmaður Blackburn, kom inná fyrir Rosenborg í síðari hálflelik og hann lagði upp sigurmarkið fyrir Tomas Malec stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Með sigrinum fer Rosenborg upp í þriðja sæti deildarinnar, en Molde hefur nú þegar tryggt sér titilinn. Vålerenga er í sjötta sæti deildarinnar, tólf stigum á eftir Rosenborg.

Þess má geta að Hólmar Örn Eyjólfsson spilaði allan leikinn í liði Rosenborg.

Á föstudaginn var tilkynnt að Viðar kæmi til greina sem sóknarmaður ársins í norsku deildinni. Hann er þar að etja kappi við Daniel Chima Chukwu hjá Molde og Fredrik Brustad hjá Stabæk. Hægt er að taka þátt í kosningurinn hér. Viðar er markahæstur í deildinni með 26 mörk, tólf meira en Alexander Söderlund, fyrrum leikmaður FH.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×