Fótbolti

Viðar Örn eftir tapið ótrúlega: „Ég er í losti“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Viðar Örn Kjartansson spilaði vel og skoraði fallegt mark.
Viðar Örn Kjartansson spilaði vel og skoraði fallegt mark. vísir/afp
Viðar Örn Kjartansson skoraði sitt fyrsta mark fyrir ísraelska liðið Maccabi Tel Aviv í gærkvöldi þegar liðið tapaði fyrir Zenit frá Pétursborg á heimavelli, 4-3, í fyrstu umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Þetta var fyrsta Evrópumark Viðars Arnar sem skoraði með flottum skalla eftir fyrirgjöf frá hægri á 50. mínútu leiksins.

Selfyssingurinn kom Maccabi í 2-0 en heimamenn náðu svo 3-0 forystu á 70. mínútu og stefndi allt í glæsilegan heimasigur gegn sterku liði Rússanna.

En allt kom fyrir ekki. Maccabi tókst á óskiljanlegan hátt að missa niður forystuna og tapa, 4-3, en Luka Djordjevic skoraði sigurmark Zenit í uppbótartíma.

„Ég er í losti,“ sagði Viðar Örn við ísraelskan blaðamann eftir leikinn en þetta var annar leikur Selfyssingsins fyrir Maccabi. Hann fiskaði vítaspyrnu í jafntefli í deildinni um helgina.

„Ég spilaði vel og þetta er aðeins annar leikur minn fyrir félagið. Mér leið vel og ég skoraði gott mark gegn stóru liði.“

„Við vorum með 3-0 forystu þegar mér var skipt af velli og þá datt mér ekki í hug að við myndum tapa. Ég er í losti. Við verðum að ræða það á milli okkar hvað fór úrskeiðis,“ sagði Viðar Örn Kjartansson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×