Fótbolti

Viðar Örn: Þetta er búið mál fyrir alla í landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Viðar Örn Kjartansson segir að honum þyki leiðinlegt að umræða um áfengisdrykkju hans í aðdraganda leiks Íslands gegn Króatíu í undankeppni HM 2018 í haust hafi komið upp síðustu dagana.

Heimir Hallgrímsson var spurður um þetta mál á blaðamannafundi KSÍ á föstudag og sagði í samtali við Vísi í dag að málið hafi komið honum í opna skjöldu. Því hafi verið lokað á sínum tíma.

„Þetta er ekki góð tímasetning,“ sagði Viðar við Vísi í dag en Ísland mætir Kósóvó í undankeppni HM 2018 á föstudag. „Það voru ekki agareglur brotnar í þessu tilviki en það var ekki fagmannlega staðið að hlutunum hjá mér. Ég ber ábyrgð á því og baðst afsökunar.“

Sjá einnig: Heimir um mál Viðars: Tímasetning spurningarinnar kjánaleg

Hann segir að málið sé búið að hans hálfu. „Það er tímabært að einbeita sér að leiknum gegn Kósóvó sem öllu máli skpitir. Ég baðst að sjálfsögðu afsökunar á þessu og læt þetta ekki koma fyrir aftur.“

„Mér finnst líka leiðinlegt að umfjöllunin fyrir þennan leik myndi fara í þetta mál. Við eigum mikilvægan leik gegn Kósóvó og erum að einbeita okkur að honum.“

Hann segir að málið hafi verið rætt, bæði á milli hans og Heimis og líka innan hópsins. „Þetta er búið mál fyrir okkur. Það var ekkert annað fyrir mig að gera en að bijðast afsökunar og láta þetta ekki koma fyrir aftur.“

Viðar Örn segir auðvelt að vera vitur eftir á í svona málum. „Það var aldrei planið að sýna hópnum óvirðingu. En þetta er búið og gert og mér finnst þetta leiðinlegt. En nú þurfum við að einbeita okkur að því sem skiptir máli.“


Tengdar fréttir

Sjáðu blaðamannafund KSÍ

Landsliðshópur Íslands fyrir leikinn gegn Kósovó í undankeppni HM 24. mars var tilkynntur á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Hans mál hvað hann gerir áður en kemur í landsliðsverkefni

Á blaðamannafundi landsliðsins í gær kom fram að framherjinn Viðar Örn Kjartansson hefði komið ölvaður til móts við landsliðið í undirbúningi leiksins gegn Króatíu síðasta nóvember. Hann kom degi á undan landsliðinu til Ítalíu í æfingabúðirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×