Fótbolti

Viðar Örn: Algjör heiður að fá að vera hérna

Óskar Ófeigur Jónsson í Astana skrifar
Viðar Örn Kjartansson, landsliðsframherji í fótbolta, flaug ekki með strákunum okkar frá Frankfurt til Astana. Þar mætir liðið Kasakstan í undankeppni EM 2016 á laugardaginn.

Það var auðvitað algjörlega tilgangslaust og hefði bara lengt ferðalag Selfyssingins sem spilar með Jiangsu Guoxin-Sainty í Nanjing í Kína og kom því úr annarri átt.

„Ég flaug í tvo og hálfan tíma. Ég er eiginlega bara hjá landamærunum þannig að þetta var mjög stutt ferðalag fyrir mig,“ segir Viðar Örn við Vísi.

„Þetta er mjög stutt frá og að vissu leyti er þetta smá líkt,“ segir hann um Astana og Nanjing. Það er þó öllu kaldara í Astana.

„Það var að ég held mínus tíu í morgun þannig að við höldum okkur bara inni. Það er mjög gott fyrir bæði lið að leikurinn fari fram innanhúss,“ segir Viðar Örn.

Viðar Örn hefur farið vel af stað með kínverska liðinu þar sem hann spilar ásamt Sölva Geir Ottesen, landsliðsmiðverði.

„Ég er kominn með einhver tvö mörk í fyrstu þremur leikjunum og hefði átt að vera búinn að skora fleiri. Þetta er búið að byrja ágætlega og verður vonandi bara byrjunin á einhverju stærra,“ segir Viðar Örn.

„Þetta er öðruvísi bolti en ég er vanur, það er meira tempó og minni taktík. Það er fullt af flottum leikmönnum þarna en þetta er öðruvísi fótbolti.“

„Mörkin hjá mér voru ekta framherjamörk eftir fyrirgjafir. Mjög fín mörk að mínu mati.“

Selfyssingurinn er hæstánægður með að vera í landsliðshópnum en hann kom vel inn í vináttuleikinn gegn Belgíu á síðasta ári og minnti á sig.

„Það er algjör heiður að vera hérna. Liðið stendur sig mjög vel núna og þetta er gífurlega mikilvægur leikur á móti Kasakstan. Ég vonast eftir því að fá að spila eins og flestir í hópnum. Það væri draumur að fá að spila,“ segir Viðar Örn.

„Samkeppnin er mikil og hópurinn er frábær. Það er mikill heiður að fá að spila.“

„Við þurfum að frá topp frammistöðu frá hverjum einasta leikmanni og sem fæst mistök. Þá getum við náð góðum úrslitum. Það er það sem við stefnum á,“ segir Viðar Örn Kjartansson.


Tengdar fréttir

Strákarnir æfa í Astana | Myndir

Allir leikmenn íslenska karlalandsliðsins í fótbolta æfðu í dag fyrir leikinn gegn Kasakstan í undakeppni EM 2016 á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×