Íslenski boltinn

Viðar Ari: Gústi þjálfari er goðsögn þarna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fjölnismaðurinn Viðar Ari Jónsson er genginn í raðir Brann í Noregi.



Viðar, sem verður 23 ára á föstudaginn, var í lykilhlutverki hjá Fjölni í Pepsi-deildinni 2015 og 2016 og vakti mikla athygli fyrir góða frammistöðu, bæði sem hægri og vinstri bakvörður.

Viðar skrifaði undir þriggja ára samning við Brann sem endaði í 2. sæti norsku úrvalsdeildarinnar í fyrra.

„Þetta hefur alltaf verið draumur. Þetta er stór klúbbur og stórt tækifæri þannig maður lætur þetta ekki framhjá sér fara,“ sagði Viðar í samtali við Arnar Björnsson í kvöldfréttum Stöðvar 2. Hann segir að félagaskiptin hafi ekki átt sér langan aðdraganda.

„Þetta gerðist frekar skjótt. Ég heyrði í umboðsmanninum og þetta kom á borðið. Við ákváðum að stökkva á þetta. Það var virkilega gott að geta farið út og sannað sig á fáum dögum og krækt í samning,“ sagði Viðar og bætti því við Fjölnir hefði ekki staðið í vegi fyrir því að hann færi upplifði drauminn um að spila sem atvinnumaður.

„Þeir voru mjög almennilegir. Þetta var draumurinn og það voru allir mjög meðvitaðir um það.“

Viðar lék sína fyrstu A-landsleiki fyrr á þessu ári. Hann vonast til að fá fleiri tækifæri í bláu treyjunni og segir að vistaskiptin til Brann ættu að hjálpa til í þeim efnum.

„Það er á hreinu. Markmiðið er að halda sér í þeim hóp og þetta skref ætti að ýta enn frekar undir það,“ sagði Viðar.

Fjölmargir Íslendingar hafa leikið með Brann í gegnum tíðina, m.a. Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis.

„Gústi þjálfari er einhver goðsögn þarna og maður er búinn að fá nóg af ábendingum,“ sagði Viðar sem fer með Brann í æfingaferð til La Manga á næstu dögum. Hann kemur aftur svo heim áður en hann fer út til Bergen í kringum 20. mars.

Fréttina í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×