Fótbolti

Viðar: Þjálfarinn er svolítið sérstakur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viðar á æfingunni í morgun.
Viðar á æfingunni í morgun. vísir/ernir
Viðar Örn Kjartansson kvaðst ánægður að vera kominn heim í kuldann á Íslandi þegar blaðamaður Vísis hitti hann að máli fyrir æfingu íslenska landsliðsins á Laugardalsvelli í morgun.

Viðar spilar með Jiangsu Guoxin-Sainty í Kína og segir að hitinn þar sé oftast í kringum 30-35 stig og fari hækkandi eftir því sem líður á sumarið.

Það vakti talsverða athygli þegar Viðar gekk í raðir Jiangsu í byrjun árs eftir að hafa orðið markakóngur í norsku úrvalsdeildinni í fyrra. Hann segist ánægður með lífið í Kína en viðurkennir að það hafi tekið tíma að aðlagast aðstæðum þar í landi.

„Þetta er fínt og það er búið að ganga þokkalega. Það tók smá tíma að venjast hlutunum þarna. Það var t.a.m. smá sjokk hvað fólkið var lélegt í ensku, maturinn var öðruvísi o.s.frv.

„Mér líður vel þarna og er ekkert að hugsa um annað en spila þarna á næstunni,“ sagði Viðar sem er kominn með fimm mörk í 12 leikjum í kínversku ofurdeildinni. En hversu sterkt lið er Jiangsu og kínverska deildin yfirhöfuð?

„Við erum mjög vel spilandi lið og sennilega meðal þeirra fimm bestu í deildinni. Við ættum að vera með fleiri stig en höfum verið klaufar í nokkrum leikjum,“ sagði Viðar og bætti við:

„Þetta er sterk deild og það er fullt af góðum leikmönnum að spila þarna. Þetta er sterkari deild en sú norska, meira tempó og erfiðara að athafna sig. Leikmenn fá minni tíma með boltann og maður þarf að hlaupa mikið.“

Þjálfari Jiangsu heitir Gao Hongbo og er fyrrverandi landsliðsþjálfari Kína.

„Hann er frekar sérstakur en fínn þjálfari samt. Hann hefur sínar eigin hugmyndir um fótbolta eins og kínversku þjálfararnir sem eru frekar varnarsinnaðir að mínu mati,“ sagði Viðar og bætti því við að munurinn á spilamennsku Jiangsu á heima- og útivelli sé mikill.

„Þegar við erum á útivelli spilum við eins og botnlið, verjumst aftarlega og beitum skyndisóknum. En þegar við spilum á heimavelli erum við aftur orðnir topplið, eins og við erum, og spilum bara okkar bolta,“ sagði Viðar að lokum.


Tengdar fréttir

Alfreð: Ár sem mun gefa mér rosalega mikið

Alfreð Finnbogason vill vera áfram hjá Real Sociedad þrátt fyrir lítinn spilatíma á sinni fyrstu leiktíð á Spáni. Honum fannst leiktíðin skemmtileg þótt erfitt hafi verið að sitja jafnmikið á bekknum og raun bar vitni.

Jón Daði: Vil komast í stærra félag

"Það er alltaf jafn gaman að koma í landsliðið og mikil tilhlökkun fyrir leiknum," segir Jón Daði Böðvarsson á Laugardalsvelli í dag en hann hefur átt frábæra leiki fyrir íslenska landsliðið í undankeppni EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×