Fótbolti

Vidal sendur heim | Mætti fullur á æfingu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vidal yfirgaf síleska landsliðshópinn í vikunni.
Vidal yfirgaf síleska landsliðshópinn í vikunni. vísir/getty
Samkvæmt síleskum fjölmiðlun mætti Arturo Vidal, leikmaður Bayern München, undir áhrifum áfengis til æfinga hjá sílenska landsliðinu á þriðjudagsmorgun.

Vidal var ekki í ástandi til að æfa og Jorge Sampaoli, landsliðsþjálfari Síle, sendi hann upp á herbergi til að sofa vímuna úr sér.

Þegar Vidal kom svo í mötuneyti landsliðsins um miðjan daginn sagði Sampaoli að hann væri á síðasta séns og sendi leikmanninn aftur til Þýskalands. Vidal missir því af vináttulandsleik Síle og Paragvæ á morgun.

Vidal komst sem frægt er í fréttirnir í sumar þegar hann stórskemmdi Ferrari-bíl sinn eftir að hafa keyrt undir áhrifum áfengis.

Vidal baðst afsökunar á atvikinu og hélt sæti sínu í landsliðshópnum. Hann átti svo stóran þátt í sigri Síle í Suður-Ameríkukeppninni en Vidal skoraði þrjú mörk í fimm leikjum á mótinu.

Vidal þvertók fyrir að nokkuð misjafnt hefði átt sér stað á þriðjudaginn og sagði að hann hefði fengið leyfi hjá Sampaoli til að fara aftur til Þýskalands. Hann ásakaði jafnframt fjölmiðla um að reyna að sverta ímynd sína.

Vidal gekk til liðs við Bayern frá Juventus í sumar eftir fjögurra ára dvöl á Ítalíu. Hann lék áður í Þýskalandi með Bayer Leverkusen á árunum 2007-11.

Vidal var tárvotur þegar hann baðst afsökunar á ölvunarakstrinum í sumar.vísir/getty

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×