Innlent

Víða týnd dýr undir snjónum

Dæmi eru um að kettir hafi fundist innlyksa undir sólpöllum eftir snjókomu helgarinnar. Dýravinasamtök beina þeim tilmælum til fólks að moka frá pöllum til að kanna hvort dýr leynist þar undir.

„Ég lenti í því að ein kisan mín hvarf í þrjá sólarhringa. Síðan fannst hún illa haldin undir palli í garði nágranna míns,“ segir María Þorvarðardóttir hjá Dýraverndunarfélagi Hafnarfjarðar.

María segir þetta ekki vera eina dæmið um dýr sem hafi týnst í hríðinni. Fjölmörg dæmi um slíkt sé að finna í ýmsum Facebook-hópum þar sem fólk auglýsir eftir týndum dýrum eða segir frá fundi týndra dýra.

„Við viljum benda fólki á að moka frá sólpöllum sínum og ýmsum skúmaskotum. Mörg dýr leituðu sér skjóls þar nú fyrir veðrinu og komast síðan ekki út,“ segir María. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×