Innlent

Víða ófært fyrir norðan

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vísir/Auðunn
Búast má við norðanátt og snjókomu og skafrenningi um norðaustan og austanvert landið frá því síðdegis í dag og fram á nótt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Hálkublettir eru í Þrengslum en annars er nokkur hálka eða hálkublettir á Suðurlandi, einkum útvegum.

Á Vesturlandi er víða hálka eða hálkublettir á vegum. Snjóþekja og éljagangur er á Holtavörðuheiðinni og víða í Húnavatnssýslunni.

Hálka er á fjallvegum á Vestfjörðum en á láglendi eru hálkublettir í Ísafjarðardjúpi en hálka á sunnanverðum Vestfjörðum.

Á Norðurlandi er víða ófært, snjóþekja, skafrenningur, éljagangur eða snjókoma og stórhríð. Lokað er um Siglufjarðarveg, en snjóflóð féll úr Miðstrandargili. Búast má við að úr fleiri giljum komi snjóflóð. Spáð er áframhaldandi sterkri NNV átt í kvöld og nótt með þéttum éljum. Ekki dregur úr úrkomu og vindi fyrr en í fyrramálið, þá má búast við áframhaldandi éljagangi fram eftir degi.

Ófært er um Víkurskarð, Tjörnes, Mývatns- og Möðrudalsöræfi, Jökuldal, Vopnafjarðaheiði, Hálsa og Hófaskarð. Þungfært er á þverárfjalli. Mjög slæmt skyggni er á Svalbarðsströndinni og stórhríð. Þæfingsfærð er í Héðinsfirði og Grenivíkur- og Dettifossvegi. Snjóþekja er í Dalsmynni.

Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja á vegum. Ófært er um Vatnsskarð eystra, Oddskarð og Fjarðarheiði. Þæfingsfærð er á Hróarstunguvegi og á Hlíðarvegi. Hálka eða hálkublettir með suðausturströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×