Lífið

Við viljum betra líf 

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Þau eru lykilfólk á námskeiðinu, Albert Bates, Robyn Francis og Mörður Ottesen.
Þau eru lykilfólk á námskeiðinu, Albert Bates, Robyn Francis og Mörður Ottesen. Mynd/SIF YRAOLA
„Við erum aðallega í hamingjugöldrum,“ segir Mörður Ottesen hlæjandi þegar hann er spurður frétta af vistræktarnámskeiðinu sem hann stendur fyrir í Hlíðardalsskóla í Ölfusi þessa dagana og alla næstu viku.

Er þetta þá ekki bara gamla hippastemningin, spyr ég

„Það mætti kalla okkur hippalíki nema hvað við erum eiturlyfjalaus og akademískari en þeir. Hipparnir vildu frið en vissu ekki hvernig þeir ættu að ná honum. Við viljum betra líf og vitum nákvæmlega hvernig við eigum að fara að því. Við erum með lausnir fyrir umhverfið í kringum okkur,“ svarar hann og hljómar sannfærandi.

Mörður segir markmið námskeiðsins að mennta hóp vistræktarhönnuða og gera þátttakendum fært að tileinka sér vistrækt, miðla kunnáttu sinni og starfa að verkefnum eftir þeirri hugmyndafræði.

„Vistrækt gengur út á að vinna með jörðinni og styrkja hana, í stað þess að ganga á hana og auðlindir hennar með einhæfum búskaparháttum, notkun tilbúins áburðar og eiturefna.“

Hann segir umhyggju fyrir jörðinni einnig umhyggju fyrir mannkyninu því heilbrigðari jörð þýði betra umhverfi fyrir manninn.

„Á námskeiðinu læra þátttakendur hvernig má fá meiri uppskeru af landinu án notkunar áburðar og eiturefna og nýta aðlindir heimsins mun betur en gert er.“

Tuttugu og fimm manns eru á námskeiðinu í Hlíðardalsskóla, þar af tíu Íslendingar. Hinir eru frá nokkrum Evrópulöndum, Kanada, Bandaríkjunum og einn nemendanna gerði sér ferð frá Costa Riga, að sögn Marðar.

Hann er afar ánægður með kennarana tvo sem honum tókst að lokka til landsins, segir þá heimsþekkta fyrir frumkvöðlastarf sitt.

„Það þykir tíðindum sæta að Albert Bates og Robyn Francis kenni saman en þau hafa í kennt vistrækt í áravís um allan heim. Albert er umhverfislögfræðingur frá Bandaríkjunum og brautryðjandi á sviði vistræktar og Robyn er frá Ástralíu, hún hefur þróað kennsluefni og kennt á meira en hundrað námskeiðum.“

Sjálfur kveðst Mörður hafa lifað samkvæmt kenningum vistræktunar í tvö ár, fyrst á Íslandi og síðar Noregi. „Í sumar var ég með tvo hektara af landi og vinn að því ásamt fleirum að byggja þar upp vistvænt þorp frá grunni.“

Þann 7. september segir Mörður norskan snilling verða með námskeið í Hlíðardalsskóla, sá ræktar ekki færri en 200 ætar fjölærar plöntur í garðinum sínum í Þrándheimi. En telur hann að þessi vistræktarstefna eigi eftir að ná fótfestu á Íslandi?

„Já, ég er algerlega fullviss um það. Það er bara verst hversu erfitt er að fá fjármagn í græn verkefni hér á landi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×