Skoðun

Við um okkur … eru mannréttindi

Guðjón Sigurðsson skrifar
„Ekkert um okkur án okkar,“ segjum við sem berjumst fyrir mannréttindum alla daga.

Meinum við eitthvað með því? Þegar okkur er boðið að taka þátt í nefndum hins opinbera ber okkur að taka þátt. Við getum ekki staðið á hliðarlínunni og volað yfir niðurstöðu, ef við tókum ekki slaginn í nefndinni eða vinnuhópnum. Það hefur þó komið fyrir að hagsmunasamtök hafni þátttöku.

Hvað þá ef við sendum einhvern fyrir okkur til að rífa kjaft. Fatlaðir verða sjálfir að ráða sínum málum. Breytir þá engu hvort um er að ræða eigið líf eða forystu í félagsstörfum okkar og hagsmunasamtökum. Það verður aldrei sannfærandi ef einhver vill vel en þekkir ekki á eigin skinni hvernig er að vera fatlaður. Meira að segja makar okkar muna ekki hvort staðurinn sem þau sóttu áðan, án okkar, var aðgengilegur eða ekki. Hvað þá einhver sem er fjær basli okkar alla daga.

Þó er glæpurinn mestur þegar stjórnvöld hafa það sem ég kalla sýndarsamráð um málefni fatlaðra. Þá ræða einhverjir sprenglærðir excel-fræðingar okkar mál en kalla okkur til þegar ákvörðun hefur verið tekin, svona til að skreyta málið. Nýlegt dæmi um þetta er ferðaþjónusta fatlaðra og allt það klúður. Það skánaði ekki fyrr en notendur komu sjálfir að borðinu.

Fatlaðir eru upp til hópa vel gert fólk með skoðun á því sem snýr að okkur. Viljugt til að taka þátt og ef við fáum þá aðstoð sem þarf, til í tuskið. Þótt ótrúlegt sé þá erum við nokkuð mörg sem erum vel sett fjárhagslega og getum hjálpað við að halda hjólum þjóðfélagsins gangandi ef við fáum tækifæri til. Stundum er bara einn andsvítans þröskuldur sem útilokar okkur frá því. Fækkum þessum manngerðu hindrunum og höfum alvöru samráð.

Njótum augnabliksins.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×