Innlent

Við þurfum að hjálpa fuglunum að lifa af

Sandra Guðrún Guðmundsdóttir skrifar
Gunnar gefur smáfuglunum
Gunnar gefur smáfuglunum Visir/Vilhelm
„Það  er mikilvægt  að fólk geri sér grein fyrir því að fyrir fuglana þá er ekkert æti að fá.  Það verður að gefa þeim eins og um hávetur sé að ræða þar til að frost fer úr jörðu,“ segir Gunnar Vilhelmsson íbúi í Grafavogi og fuglavinur.

„Ég gef fuglunum alltaf allan veturinn en þegar snjóa leysir láta þeir sig hverfa.  Nú eru svona hundrað fuglar í trénu hérna fyrir utan heima hjá mér.“  Fuglarnir hafa verið að koma í vetur í garðinn til Gunnars. Hann segir þá hafa snúið aftur því ekkert æti sé að finna í náttúrunni. Gunnar segir að þetta séu skógarþrestir og svartþrestir, þeir séu próteinætur og því séu fræ ekki nóg fyrir þá.

„Við höfum verið að gefa þeim hvolpamat því hann er svo próteinríkur, ég hef aðstöðu til þess þar sem ég er eigandi Dýraríkisins. En þetta þarf ekki að vera hágæðafóður þetta fæst í flestum verslunum og er betra en maískurlið sem verið er að gefa. Þeir fá enga næringu úr því.“

Gunnar og konan hans hafa verið að gefa fuglunum um það bil sex kíló á dag en hann segir það hafa farið upp í 15 til 20 kíló yfir vetrartímann.  Hann segist þó ekki geta fullyrt um það hvort mikið af fuglum deyi yfir vetrartímann. „En ég hef heyrt að fólk sé að rekast á dauða þresti fyrir norðan.“



„Ég held bara að fólk kveiki ekki, það er kominn 28. apríl og fólk heldur að það þurfi ekkert að gefa þeim, það þarf að ýta við fólki. Þetta er búinn að vera mjög harður og erfiður vetur og við þurfum að hjálpa fuglunum að lifa þetta af.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×