Lífið

Við hættum aldrei að vera landnemar

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Jóhanna Friðrika og Kjartan Darri  á sviði Samkomuhússins.
Jóhanna Friðrika og Kjartan Darri á sviði Samkomuhússins. Mynd/Auðunn
Helgi magri og Þórunn hyrna voru að flýja ófrið þegar þau stigu á land hér í Eyjafirði á sínum tíma í leit að betra lífi. Það er aðalinntakið í sýningunni hjá okkur. Við hættum aldrei að vera landnemar,“ segir Benedikt Karl Gröndal leikari. Hann fer með eitt af fjórum hlutverkum í sýningu Leikfélags Akureyrar, Helgi magri, sem verður frumsýnd í Samkomuhúsinu 2. september.

Matthías Jochumsson skáld skrifaði leikritið í tilefni þúsund ára afmælis landnáms í Eyjafirði árið 1890, það hefur ekki verið sett upp síðan. „Sýningin var íburðarmikil en að margra mati eitt af verstu verkum Matthíasar enda afsakar hann sig í formálanum og kveðst hafa tekið sér skáldaleyfi,“ lýsir Benedikt. 

 

„Það eru tilfinningar í þessu verki,“ segir Benedikt Karl.Vísir/GVA
Í okkar sýningu eru fjórir trúðar sem segja söguna með sínum hætti og upp úr kafinu kemur að þetta er alls ekki slæmt leikrit, heldur konfektmoli hjúpaður í kærleika. Aðal trúðsins felst í að hann segir alltaf satt og stundum er sannleikurinn fyndinn og stundum sorglegur. En trúðarnir taka sér skáldaleyfi líka og hver sýning verður einstök því það sem liggur fyrir þann daginn verður tekið inn í.“

Listrænir stjórnendur og höfundar Helga magra, auk leikaranna, eru Jón Páll Eyjólfsson og Þóroddur Ingvarsson. Trúðarnir eru Benedikt Karl, Halldóra Malín Pétursdóttir, Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir og Kjartan Darri Kristjánsson. Benedikt segir trúðana stjórna tækninni á sýningum, það auki á spennuna að sjá hvort þeir klúðri málum eða standi sig.“

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. ágúst 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×